Þrír ungir lykilmenn framlengdu í Mosfellsbæ

Blær Hinriksson, Brynjar Vignir Sigurjónsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson.
Blær Hinriksson, Brynjar Vignir Sigurjónsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson. Ljósmynd/Afturelding

Handknattleiksdeild Aftureldingar hefur komist að samkomulagi við þrjá lykilmenn sína, þá Þorstein Leó Gunnarsson, Blæ Hinriksson og Brynjar Vigni Sigurjónsson, um að þeir verði áfram í herbúðum Mosfellinga til næstu þriggja ára.

Þorsteinn Leó er tvítug vinstri skytta, Blær er 21 árs leikstjórnandi og vinstri skytta og Brynjar Vignir er tvítugur markvörður.

Allir þrír hafa verið í algjörum lykilhlutverkum hjá Aftureldingu á yfirstandandi tímabili þar sem Blær hefur skorað 80 mörk, Þorsteinn Leó 69 mörk og Brynjar Vignir verið öflugur í markinu.

Blær kom frá HK sumarið 2020 en Þorsteinn Leó og Brynjar Vignir eru uppaldir hjá Aftureldingu.

„Leikmennirnir þrír eiga það allir sameiginlegt að eiga framtíðina fyrir sér og hafa sett stefnuna hátt í handbolta. Leikmennirnir eru frábærar fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur í Aftureldingu, og hafa svo sannarlega sýnt að með dugnaði og elju eru íþróttamönnum allir vegir færir.

Við hjá Aftureldingu erum afar stolt að hafa gert framtíðarsamninga við þessa þrjá ungu leikmenn, sem við sjáum sem burðarrása í liðinu okkar næstu misseri. Til hamingju Afturelding og til hamingju Þorsteinn Leó, Blær og Brynjar Vignir!“ sagði meðal annars í tilkynningu frá handknattleiksdeild Aftureldingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert