Selfyssingar örugglega í undanúrslit

Selfyssingar fagna sæti í undanúrslitum í kvöld.
Selfyssingar fagna sæti í undanúrslitum í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Katla María Magnúsdóttir átti stórleik fyrir Selfoss þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik, Powarade-bikarsins, í Set-höllinni á Selfossi í 8-liða úrslitum keppninnar í kvöld.

Leiknum lauk með stórsigri Selfoss, 36:27, en Katla María gerði sér lítið fyrir og skoraði 14 mörk í leiknum úr 18 skotum.

Liðin skiptust á að skora fyrstu fimm mínútur leiksins en þá hrukku Selfyssingar í gang og leiddu þeir með fimm mörkum í hálfleik, 18:13.

Selfyssingar skoruðu fimm fyrstu mörk síðari hálfleik, á fjögurra mínútna kafla, og komust í 23:13. HK-ingum tókst að minnka forskot Selfyssinga í átta mörk en lengra komust þeir ekki og Selfoss fagnaði öruggum sigri.

Rakel Guðjónsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Selfoss og þá varði Cornelia Hermannsson 13 skot í markinu og var með 36% markvörslu.

Embla Steindórsdóttir skoraði sjö mörk fyrir HK en Ethel Gyða Bjarnsen átti mjög góðan leik í marki HK-inga, varði 13 skot og var með 45% markvörslu en það dugði ekki til.

Selfoss er því komið áfram í undanúrslitin sem fara fram í Laugardalshöll, miðvikudaginn 15. mars, en í hinum leikjum 8-liða úrslitanna mætast Víkingur og Haukar, Fram og Valur og loks Stjarnan og ÍBV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert