Guðmundur hættur með landsliðið

Guðmundur Guðmundsson
Guðmundur Guðmundsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Þ.  Guðmundsson er hættur störfum með karlalandslið Íslands í handknattleik.

Handknattleikssamband Íslands tilkynnti þetta fyrir stundu og sagði að sambandið og Guðmundur hefðu komist að samkomulagi um starfslok hans sem þjálfara.

Samkomulagið sé í sátt beggja aðila og ekki standi til að tjá sig frekar um innihald þess.

Guðmundur hefur samtals þjálfað íslenska landsliðið í fjórtán ár á þremur tímabilum. Undir hans stjórn varð liðið í 4. sæti á EM árið 2002, sjöunda sæti á HM 2003, fékk silfur á Ólympíuleikunum í Peking 2008, fékk bronsverðlaun á EM árið 2010, varð í sjötta sæti á EM 2012, hafnaði í fimmta sæti á Ólympíuleikunum 2012 í London og varð í sjötta sæti á EM 2022.

Hann tók við liðinu í þriðja sinn árið 2018 en það hafnaði í tólfta sæti á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í Svíþjóð og Póllandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert