Sakaður um að slá á afturenda starfsmanns Vals

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV.
Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sigurður Bragason, þjálfari kvennaliðs ÍBV í handknattleik, er sakaður um ósæmilega hegðun eftir sigur liðsins í toppslag gegn Val í Olísdeildinni í Vestmannaeyjum um síðustu helgi.

Vísir greinir frá því að Sigurður, sem fékk útilokun frá dómurum leiksins, sé sakaður um að hafa slegið á afturenda starfsmanns Vals að leiknum loknum.

Leikmaður Vals hafi séð það og skammað Sigurð fyrir. Þá hafi hann brugðist ókvæða við, hreytt fúkyrðum í leikmanninn og rétt löngutöng framan í andlit leikmannsins.

Í skýrslu dómara segir að Sigurður hafi hlotið útilokun vegna „mjög grófrar ódrengilegrar hegðunar eftir leik“.

Auk skýrslu dómara barst aganefnd HSÍ erindi frá Róberti Geir Gíslasyni, framkvæmdastjóra sambandsins.

Aganefnd mun að öllum líkindum taka málið fyrir á fundi næstkomandi þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert