Svöruðu tapinu í Tékklandi með stórsigri

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik endurheimti toppsæti 3. riðils undankeppni EM 2024 með stórsigri gegn Tékklandi í Laugardalshöll í dag.

Leiknum lauk með níu marka sigri Íslands, 28:19, en Gísli Þorgeir Kristjánsson og Viggó Kristjánsson voru markahæstir í íslenska liðinu með sex mörk hvor.

Viggó Kristjánsson skoraði fyrsta mark leiksins en Tékkar skoruðu næstu tvö og komust í 2:1.

Liðin skiptust á að skora og Elvar Örn Jónsson kom Íslandi tveimur mörkum yfir, 5:3. Tékkum tókst að jafna metin og var mikið jafnræði með liðunum á fyrstu mínútunum.

Aron Pálmarsson kom íslenska liðinu aftur tveimur mörkum yfir, 10:8, þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og Arnar Freyr Arnarsson kom Íslandi í 11:8 stuttu síðar eftir frábæra innkomu markvarðarins Viktors Gísla Hallgrímssonar sem lokaði markinu.

Arnar Freyr kom Íslandi svo fjórum mörkum yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar mínúta var eftir af hálfleiknum, 15:11, en Matej Klíma náði að laga stöðuna undir lok fyrri hálfleiks og staðan í hálfleik var því 15:12, Íslandi í vil.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks en Steven Tobar Valencia kom Íslandi sex mörkum yfir í fyrsta sinn í leiknum á 42. mínútu með sínu fyrsta landsliðsmarki, 20:14.

Óðinn Þór Ríkharðsson kom Íslandi sjö mörkum yfir, 22:15, þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum af vítalínunni og Gísli Þorgeir kom Íslandi átta mörkum yfir, 23:15 þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Tékkum tókst hins vegar að minnka forskot íslenska liðsins í fimm mörk þegar átta mínútur voru eftir með marki af vítalínunni, 23:18.

Þá kom frábær leikkafli hjá íslenska liðinu þar sem Viktor Gísli lokaði markinu og sóknarleikurinn gekk frábærlega. Viggó Kristjánsson kom Íslandi átta mörkum yfir, 27:19, þegar tvær mínútur voru til leiksloka og Óðinn Þór Ríkharðsson innsiglaði níu marka sigur liðsins á lokamínútu leiksins.

Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórleik í marki Íslands, varði 13 skot, þar af eitt vítakast, og var með rúmlega 50% markvörslu.

Ísland er með sex stig í efsta sæti riðilsins, líkt og Tékkland, en Ísland er með betri innbyrðisviðureign á Tékka. Eistland er með tvö stig og Ísrael er án stiga.

Ísland mætir Eistlandi og Ísrael í lokaleikjum undankeppninnar í apríl og með sigri í báðum leikjum tryggir liðið sér efsta sæti riðilsins og þar með sæti í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir EM 2024 sem fram fer í Þýskalandi.

Ísland 28:19 Tékkland opna loka
60. mín. Óðinn Þór Ríkharðsson (Ísland) skoraði mark Níu marka munur!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert