Þetta er einfaldlega ekki rétt

Ýmir Örn Gíslason.
Ýmir Örn Gíslason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það tók okkur einhverja fimmtán til sextán klukkustundir að komast heim til Íslands og af þeim sökum sveið þetta tap gegn Tékklandi kannski extra mikið,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is, á æfingu íslenska liðsins í Safamýri á föstudaginn.

Íslenska liðið undirbýr sig nú fyrir afar mikilvægan leik gegn Tékklandi í 3. riðli undankeppni EM 2024 sem fram fer í dag í Laugardalshöll en liðin mættust í Brno í Tékklandi á miðvikudaginn þar sem Tékkar unnu 22:17-sigur.

Ísland er með 4 stig í öðru sæti riðilsins á meðan Tékkar eru með 6 stig í efsta sætinu og þarf Ísland að vinna með sex marka mun eða meira til þess að endurheimta efsta sæti riðilsins.

Ýmir Örn Gíslason fagnar á HM.
Ýmir Örn Gíslason fagnar á HM. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óþægilegt að horfa á þetta

Íslenska liðið skoraði einungis 17 mörk gegn Tékkum og var frammistaðan ein sú slakasta sem sést hefur hjá karlalandsliðinu í langan tíma.

„Við tókum góðan fund eftir leikinn þar sem við fórum vel yfir leikinn og hvað við hefðum getað gert betur. Það var hálf óþægilegt að horfa á þetta og við þurfum einfaldlega að stíga upp núna og gera hlutina mikið mun betur.

Það er gott að fá þennan leik á móti þeim strax og hann gefur okkur tækifæri til þess að svara almennilega fyrir þetta tap. Við þurfum heldur betur að mæta til leiks og vinna þá með að minnsta kosti sex marka mun, helst meira,“ sagði Ýmir.

Ýmir Örn Gíslason, Sigvaldi Björn Guðjónsson og Viggó Kristjánsson mæta …
Ýmir Örn Gíslason, Sigvaldi Björn Guðjónsson og Viggó Kristjánsson mæta á æfingu Íslands á föstudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fólk á rétt á sinni skoðun

Eftir tapið í Brno voru leikmenn liðsins harðlega gagnrýndir og var meðal annars talað um slaka liðsheild, andleysi og að það vantaði allt hjarta í liðið.

„Ég tek gagnrýnina ekki inn á mig persónulega því mér finnst þetta einfaldlega ekki rétt. Hver og einn má hafa sína skoðun og það er hluti af leiknum. Við vorum alls ekki andlausir í síðasta leik eða illa undirbúnir.

Við vorum einfaldlega ekki góðir og við spiluðum ekki góðan handbolta, sérstaklega sóknarlega. Við hlupum völlinn illa en það er ekki hægt að skrifa þetta á andleysi. Við vorum lélegir, hittum ekki á góðan leik og við verðum að gera betur því frammistaðan var ekki boðleg.“

Ýmir Örn Gíslason, Elliði Snær Viðarsson, Björgvin Páll Gústavsson, Elvar …
Ýmir Örn Gíslason, Elliði Snær Viðarsson, Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson og Ágúst Elí Björgvinsson eftir lokaleikinn á HM. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilja mikla umfjöllun

Er línu- og varnarmaðurinn ósáttur við gagnrýnina?

„Nei nei og ég skil alveg fólk þannig lagað. Það hefur rétt á sinni skoðun og umræðan er bara eins og hún er. Við viljum þessa miklu umfjöllun og það er þá okkar líka að höndla hana. Það er alfarið á okkur og engum öðrum.

Það er jákvætt að fólk sé að tala um okkur en númer eitt tvö og þrjú þá þurfum við að gera betur, handboltalega séð. Við vitum alveg hvenær við eigum skilið gagnrýni og hvenær ekki. Öll þjóðin er með okkur í þessu og það er eðlilegt að tilfinningar fólks og fjölmiðla sveiflist með,“ bætti Ýmir Örn við í samtali við mbl.is.

Ágúst Jóhannsson og Gunnar Magnússon fara yfir málin í Safamýrinni.
Ágúst Jóhannsson og Gunnar Magnússon fara yfir málin í Safamýrinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is