„Held að ég hafi aldrei upplifað annað eins“

Stiven Tobar Valencia í þann mund að skora annað af …
Stiven Tobar Valencia í þann mund að skora annað af tveimur mörkum sínum fyrir Ísland í gær. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta var geðveikt. Ég held að ég hafi aldrei upplifað annað eins. Að fá troðfulla höll og fá að spila 30 mínútur. Ég er meira en þakklátur,“ sagði Stiven Tobar Valencia í samtali við mbl.is eftir 28:19-sigur Íslands á Tékklandi í gær.

Leikurinn var liður í undankeppni 2024 í handknattleik og með stórsigrinum fór Ísland aftur upp í toppsæti riðils 3 í undankeppninni.

Stiven skoraði sín fyrstu landsliðsmörk í leiknum í gær í sínum öðrum A-landsleik. Þá stóð hann vaktina afar vel í vörninni.

„Jú, ég er sáttur með eigin frammistöðu. Ég hefði reyndar viljað fá fleiri hraðaupphlaup en þau komu ekki í dag. Ég á það líka inni, maður veit af því.

Vörnin stóð vel og það var gott að geta skilað einhverju til liðsins,“ sagði hann um eigin frammistöðu í leiknum.

Í fyrsta landsleik Stivens gegn Tékklandi í Brno á miðvikudag tapaði Ísland afar illa, 17:22. Þótti honum munur á stemningunni innan íslenska liðsins á milli þessara tveggja leikja?

„Nei ekkert þannig. Við erum allir í þessu saman og töluðum vel saman. Aron [Pálmarsson fyrirliði] er líka að stýra þessu vel. Strákarnir hafa líka tekið vel á móti mér.

Við vorum vel upp lagðir í dag og það er líka allt annað að spila með fólkið sitt á bak við sig,“ sagði Stiven að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert