Algjörlega óskiljanlegt og ömurlegt

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér líður illa að tapa svona,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir tap liðsins gegn Aftureldingu, 26:35, í undanúrslitum bikarkeppni karla í handknattleik, Powerade-bikarsins, í Laugardalshöll í kvöld.

„Við byrjum leikinn hræðilega og förum illa með aragrúa af dauðafærum. Við klikkum á sex vítum í leiknum og spilum varnarleikinn illa. Þeir fara þetta á kraftinum eins og þeir gera alltaf og ef þú mætir því ekki þá taparðu bara einn á einn.

Ég er mjög ósáttur með það hversu lélegir við vorum strax í byrjun leiks. Það er ekki hægt að fegra þetta neitt, bæði hvernig mér líður og hvernig við töpum leiknum. Mér líður aldrei vel eftir tapleiki og hvað þá núna,“ sagði Patrekur.

Hergeir Grímsson var besti leikmaður Stjörnunnar í leiknum.
Hergeir Grímsson var besti leikmaður Stjörnunnar í leiknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikið af farþegum

Garðbæingar unnu afar sterkan eins marks sigur gegn Íslands- og ríkjandi bikarmeisturum Vals í 8-liða úrslitum keppninnar.

„Það var allt of mikið af farþegum hjá okkur í dag sem er algjörlega óskiljanlegt og ömurlegt. Það var mikil stemning hjá okkur fyrir leikinn og það var fullt af Garðbæingum sem mættu í kvöld og ég þakka þeim kærlega fyrir stuðninginn.

Þess vegna eru þetta gríðarleg vonbrigði en svona er íþróttin. Þú þarft að vera meiri nagli ef þú ætlar að vinna bikar en það var allt sem klikkaði í dag, svo við segjum það bara eins og það er,“ sagði Patrekur í samtali við mbl.is. 

Það var hart tekist á í Laugardalshöllinni í kvöld.
Það var hart tekist á í Laugardalshöllinni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is