Ég fer beint í klippiherbergið

Heimir Óli Heimisson í baráttunni í Höllinni í kvöld.
Heimir Óli Heimisson í baráttunni í Höllinni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er ógeðslega ánægður með frammistöðu liðsins,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, eftir öruggan átta marka sigur liðsins, 32:24, gegn Fram í undanúrslitum bikarkeppni karla í handknattleik, Powerade-bikarsins, í Laugardalshöll í kvöld.

„Þetta var frábær leikur hjá okkur, frá A til Ö, og liðsheildarsigur ef svo má segja. Við fengum framlag frá mörgum leikmönnum og það sem skóp þennan sigur auðvitað var varnarleikurinn.

Við ákváðum að gera það sem við erum góðir í ef svo má segja og við náðum að framkalla það í dag. Við vorum búnir að kortleggja þá mjög vel þannig að það var fátt sem kom okkur á óvart í þeirra leik,“ sagði Ásgeir Örn.

Aron Rafn Eðvarðsson var frábær í leiknum.
Aron Rafn Eðvarðsson var frábær í leiknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gæti gefið okkur mikla orku

Tímabilið hefur ekki gengið sem skildi hjá Haukum sem eru með 17 stig í áttunda sæti deildarinnar.

„Sigur í bikarkeppninni gæti gefið okkur mikla orku upp á framhaldið að gera og það væri mjög stórt fyrir okkur að vinna hana. Við þurfum að bíða og sjá hverjum við mætum en það er mikilvægt að ná að framkalla aftur þessa orku og ákefð sem við sýndum hérna í dag.“

Það skýrist svo síðar í kvöld hvort Haukar mæta Aftureldingu eða Stjörnunni í úrslitum.

„Það verða eflaust einhverjar taktískar breytingar fyrir næsta leik. Strákarnir nýta kvöldið vel í að slaka á á meðan ég fer beint í klippiherbergið,“ bætti Ásgeir Örn við í samtali við mbl.is.

Guðmundur Bragi Ástþórsson í baráttunni.
Guðmundur Bragi Ástþórsson í baráttunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert