Halldór hafði betur gegn Guðmundi

Halldór Jóhann Sigfússon þjálfar Tvis Holstebro.
Halldór Jóhann Sigfússon þjálfar Tvis Holstebro. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldór Jóhann Sigfússon hafði betur gegn Guðmundi Þórði Guðmundssyni þegar lið íslensku þjálfaranna, Tvis Holstebro og Fredericia, mættust í spennuleik í dönsku úrvalsdeild karla í handknattleik í kvöld.

Holstebro vann mikinn spennuleik, 28:27, og komst með því í áttunda sætið, sem gefur keppnisrétt í úrslitakeppninni, en liðið berst um það við Ribe-Esbjerg og SönderjyskE.

Holstebro er með 20 stig Ribe-Esbjerg 20 og SönderjyskE 18 í áttunda til tíunda sæti.

Fredericia er í sjöunda sætinu en er með 24 stig þegar þrjár umferðir eru eftir og því langt komið með að tryggja sér sæti í úrslitunum um meistaratitilinn. Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia í kvöld en hann er jafnan í stóru hlutverki í varnarleik liðsins.

mbl.is