Ísfirðingar fallnir úr deildinni

Carlos Martin og hans menn í Herði verða að sætta …
Carlos Martin og hans menn í Herði verða að sætta sig við fall úr úrvalsdeildinni. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Hörður frá Ísafirði er fallinn úr úrvalsdeild karla í handknattleik eftir ósigur gegn ÍBV á heimavelli í kvöld, 33:30.

Harðarmenn, sem leika í deildinni í fyrsta skipti, eru aðeins með tvö stig eftir 18 leiki og geta ekki lengur náð KA  sem er í þriðja neðsta sætinu.

ÍBV lyfti sér hins vegar upp í þriðja sætið með 22 stig og er nú tveimur stigum á eftir FH en á einn leik til góða.

Ísfirðingar byrjuðu afar vel í kvöld og komust í 6:2. Eyjamenn voru fljótir að svara því, höfðu jafnað eftir 16 mínútur og komust síðan yfir, 11:9. Harðarmenn brotnuðu ekki við það, náðu forystunni á ný og voru yfir í hálfleik, 18:16.

Þeir bættu við í byrjun síðari hálfleiks og náðu þriggja marka forystu, 22:19, en ÍBV svaraði því með fjórum mörkum í röð og var komið þremur mörkum yfir, 28:25, þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Ísfirðingar svöruðu enn á ný og jöfnuðu, 29:29, þegar fimm mínútur voru eftir, og aftur 30:30. Þá skoruðu Dagur Arnarsson og Kári Kristján Kristjánsson fyrir Eyjamenn og Kári átti síðan lokaorðið, 33:30.

Mörk Harðar: Leó Renaud-David 9, Jón Ómar Gíslason 5, Guntis Pilkuks 4, Endijs Kusners 3, Victor Iturrino 3, José Esteves Neto 2, Óli Björn Vilhjálmsson 2, Guilherme Andrade 2.
Rolands Lebedevs varði 17 skot.

Mörk ÍBV: Kári Kristján Kristjánsson 10, Elmar Erlingsson 6, Gabríel Martinez 4, Sigtryggur Daði Rúnarsson 3, Arnór Viðarsson 2, Theodór Sigurbjörnsson 2, Róbert Sigurðrason 2, Nökkvi Snær Óðinsson 2, Dagur Arnarsson 1, Dánjal Ragnarsson 1.

Kári Kristján Kristjánsson var drjúgur fyrir Eyjamenn í kvöld.
Kári Kristján Kristjánsson var drjúgur fyrir Eyjamenn í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert