Skoraði sex og dýrmætt stig í höfn

Bjarni Ófeigur Valdimarsson í leik með Skövde.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson í leik með Skövde. Ljósmynd/Skövde

Bjarni Ófeigur Valdimarsson var í stóru hlutverki hjá Skövde í kvöld þegar liðið náði í dýrmætt stig á útivelli gegn Malmö í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik.

Bjarni skoraði sex mörk, fjögur þeirra í síðari hálfleiknum, en Skövde náði að jafna í lokin, 29:29, eftir að hafa verið undir nær allan leikinn.

Stigið fleytir liðinu nær átta liða úrslitakeppninni en liðið er í sjöunda sæti með 23 stig þegar það hefur leikið 24 leiki af 26 og er tveimur stigum fyrir ofan níunda sætið.

Bjarni kveður Skövde eftir þetta tímabil en hann gengur til liðs við Minden í Þýskalandi í sumar.

Sävehof, lið Tryggva Björnssonar, vann öruggan sigur á Alingsås, 30:23. Tryggvi skoraði ekki í leiknum. Sävehof berst við Kristianstad um deildarmeistaratitilinn og er þar stigi á eftir toppliðinu.

mbl.is