Viggó skaut Löwen af toppnum

Viggó Kristjánsson átti frábæran leik í kvöld.
Viggó Kristjánsson átti frábæran leik í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, átti sannkallaðan stórleik í kvöld þegar hann og félagar hans í Leipzig skutu topplið þýsku 1. deildarinnar, Rhein-Neckar Löwen, nánast í kaf.

Leipzig, undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar, vann ótrúlegan sigur, 37:29, eftir að hafa náð níu marka forystu seint í leiknum. Viggó skoraði hvorki fleiri né færri en 11 mörk í leiknum, þrjú þeirra af vítalínunni. Ýmir Örn Gíslason náði ekki að skora fyrir Löwen.

Füchse Berlín nýtti sér þetta og komst á toppinn með sigri á lærisveinum Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach, 38:33. Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk fyrir Gummersbach en Hákon Daði Styrmisson ekkert.

Vonir Magdeburg um að verja meistaratitilinn eru orðnar frekar litlar eftir ósigur fyrir Hannover-Burgdorf á útivelli í kvöld, 34:31. Gísli Þorgeir Kristjánsson átti góðan leik og skoraði átta mörk fyrir Magdeburg en Kay Smits var markahæstur með 11 mörk. Hann leysir af Ómar Inga Magnússon sem er frá keppni vegna meiðsla. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.

Füchse-Berlín er nú með 39 stig á toppnum, Rhein-Neckar Löwen er með 37, Kiel 34, Magdeburg 33, Flensburg 32, Hannover-Burgdorf 27 og Leipzig 24 stig. Füchse og Löwen hafa leikið tveimur leikjum meira en hin liðin.

Sveinn Jóhannsson skoraði tvö mörk fyrir Minden sem tapaði, 23:29, á heimavelli fyrir Stuttgart og fátt virðist geta bjargað liðinu frá falli. Minden er með sex stig í næstneðsta sætinu, þremur stigum á eftir Wetzlar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert