Bruno framlengir á Akureyri

Bruno Bernat í leik með KA á tímabilinu.
Bruno Bernat í leik með KA á tímabilinu. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Handknattleiksmarkvörðurinn Bruno Bernat hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild KA og heldur því kyrru fyrir hjá uppeldisfélagi sínu.

Í vetur hefur Bruno verið einn besti markvörður Olísdeildarinnar þar sem hann er með 33 prósent hlutfallsmarkvörslu að meðaltali.

Bruno verður 21 árs á árinu og hefur verið hluti af U21-árs landsliði Íslands. Lék hann með íslenska liðinu á dögunum er það vann frækinn sigur á frönskum jafnöldrum sínum, 33:24, í vináttulandsleik í Frakklandi.

„Bruno kom af krafti ungur inn í markið í meistaraflokksliði KA en hann verður 21 árs á næstu dögum og verður afar gaman að fylgjast áfram með hans framgöngu.

Við erum afar spennt fyrir því að halda Bruno áfram innan okkar raða en auk þess að vera frábær í markinu er Bruno þekktur fyrir frábærar sendingar upp völlinn sem hafa gefið fjölmörg mikilvæg hraðaupphlaupsmörk undanfarin ár,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá handknattleiksdeild KA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert