Það er loksins partí í Mosó

Þorsteinn Leó Gunnarsson í baráttunni.
Þorsteinn Leó Gunnarsson í baráttunni. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég er ótrúlega stoltur af strákunum að klára þennan leik,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, í samtali við mbl.is eftir 28:27-sigur liðsins gegn Haukum í úrslitum bikarkeppni karla í handknattleik í Laugardalshöll í dag.

„Mér fannst við slakir í fyrri hálfleik en vorum samt sem áður bara tveimur mörkum undir í hálfleik og það gaf okkur von. Hlutirnir fóru svo að detta aðeins með okkur í seinni hálfleik og við náðum að snúa leiknum okkur í vil.

Ég er ótrúlega sáttur með karakterinn í liðinu og það er mjög stórt fyrir okkur að hafa klárað þennan leik. Þetta er fyrsti titill félagsins í mörg ár og það eru margir uppaldir strákar hérna sem er búið að dreyma um þetta lengi,“ sagði Gunnar.

Birkir Benediktsson sækir að Hafnfirðingum í dag.
Birkir Benediktsson sækir að Hafnfirðingum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Ótrúlega mikilvægt fyrir klúbbinn

Þetta er í annað sinn sem liðið verður bikarmeistari en Afturelding varð bikarmeistari í fyrsta sinn árið 1999.

„Þessi sigur er ótrúlega mikilvægur fyrir klúbbinn, að ná þessum áfanga, og vonandi er þetta upphafið að einhverju góðu, ekki endirinn. Afturelding á að vera stórveldi í íslenskum handbolta og það er okkar núna að nýta okkur meðbyrin og byggja ofan á þetta því við eigum fullt af efnilegum leikmönnum í dag.“

Mosfellingar ætla að fagna titilinum vel í Hlégarði í kvöld.

„Mér skilst að það verði partí í Mosó í kvöld, loksins, og það er ekkert sem sameinar bæinn betur en íþróttalífið og það er okkar að búa til fleiri svona augnablik,“ bætti Gunnar við í samtali við mbl.is.

Blær Hinriksson skorar eitt af mörkum sínum.
Blær Hinriksson skorar eitt af mörkum sínum. mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is