Tveir tvísýnir úrslita­leikir í Höllinni?

Eyjakonan Birna Berg Haraldsdóttir skýtur að marki en Valskonan Mariam …
Eyjakonan Birna Berg Haraldsdóttir skýtur að marki en Valskonan Mariam Eradze verst í hörkuleik liðanna á dögunum. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Úrslitaleikirnir í bikarkeppni karla og kvenna í handknattleik fara fram í Laugardalshöllinni í dag en þetta er 50. úrslitaleikurinn í karlaflokki frá upphafi og sá 48. í kvennaflokki.

Miðað við stöðu liðanna á Íslandsmótinu og fyrri viðureignir í vetur ættu þetta að verða tveir hörkuleikir þar sem dagsformið ræður úrslitum.

ÍBV og Valur mætast í úrslitaleik kvenna klukkan 13.30. Þar eiga Valskonur titil að verja frá því í fyrravetur en félagið hefur alls unnið bikarinn átta sinnum frá 1988. ÍBV hefur orðið bikarmeistari þrisvar, árin 2001, 2002 og 2004.

Þetta eru efstu liðin í úrvalsdeild kvenna en þau eru þar jöfn að stigum á toppnum með 32 stig hvort. ÍBV er á meiri sigurbraut því liðið hefur unnið alla leiki í deild og bikar frá 19. október. Þá tapaði ÍBV einmitt fyrir Val, 26:31 á heimavelli, en hefur síðan unnið Val tvisvar í deildinni, 32:29 á Hlíðarenda í janúar og 29:28 í dramatískum leik í Eyjum 25. febrúar.

Haukar og Afturelding mætast í úrslitaleik karla klukkan 16. Haukar eru næstsigursælasta félag keppninnar í karlaflokki, á eftir Val, en félagið hefur sjö sinnum unnið bikarinn, fyrst árið 1980 og síðast árið 2014.

Afturelding hefur hins vegar aðeins einu sinni orðið bikarmeistari en það var árið 1999.

Afturelding er í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar með 21 stig en Haukar eru í áttunda sæti með 17 stig. Afturelding vann fyrri leik liðanna í deildinni á Ásvöllum í október, 27:26, en Haukar unnu hins vegar seinni leikinn á Varmá í febrúar, 26:24.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert