Bjarki átti ótrúlegan fyrri hálfleik

Bjarki Már Elísson var óstöðvandi í gær.
Bjarki Már Elísson var óstöðvandi í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik, fór á kostum í gær þegar lið hans, Veszprém, vann öruggan útisigur á Gyöngyösi, 38:29, í ungversku 1. deildinni.

Bjarki skoraði fimm mörk á fyrstu 15 mínútunum og níu mörk alls í fyrri hálfleiknum, af 22 mörkum Veszprém, sem var með yfirburðaforystu í hálfleik, 22:12.

Hann lét þar staðar numið en var eftir sem áður markahæsti leikmaður Veszprém í leiknum með níu mörk.

Veszprém hefur unnið alla 18 leiki sína í deildinni í vetur og heyr hefðbundið einvígi við Pick Szeged sem er með 18 sigra í 19 leikjum.

mbl.is