Brekka ÍR-inga enn brattari eftir tap gegn ÍBV

Kári Kristján Kristjánsson skýtur að marki ÍR-inga í leiknum.
Kári Kristján Kristjánsson skýtur að marki ÍR-inga í leiknum. mbl.is/Kristinn Magnússon

ÍBV vann nokkuð sannfærandi sigur á ÍR, 35:28, í Breiðholti í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

ÍBV náði nokkurra marka forystu í fyrri hálfleik sem liðið lét aldrei af hendi. ÍR-ingar reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn en færanýting liðsins varð þeim að falli. Ólafur Rafn Gíslason, markvörður ÍR, varði vel framan af leik og hélt veikri von heimamanna á lífi en það dugði ekki til.

Kári Kristján Kristjánsson var markahæstur Eyjamanna í leiknum með sjö mörk en þeir Nökkvi Snær Óðinsson og Sigtryggur Daði Rúnarsson komu næstir með sex mörk hvor. Pavel Miskevich varði 16 skot í marki ÍBV.

Hjá ÍR var Eyþór Waage markahæstur með sjö mörk en Ólafur Rafn varði 15 skot í markinu.

Með sigrinum fer ÍBV upp í þriðja sæti deildarinnar en liðið er nú með 24 stig, líkt og FH í öðru sæti, en Hafnfirðingar eru með betri innbyrðisárangur. ÍR er í 11. sæti deildarinnar með átta stig, þremur stigum minna en KA þegar fjórar umferðir eru eftir.

Mörk ÍR: Eyþór Waage 7, Róbert Snær Örvarsson 4, Arnar Freyr Guðmundsson 4, Viktor Sigurðsson 4, Dagur Sverrir Kristjánsson 3, Bjarki Steinn Þórisson 2, Sveinn Brynjar Agnarsson 2, Úlfur Kjartansson 1, Markús Björnsson 1.

Mörk ÍBV: Kári Kristján Kristjánsson 7, Nökkvi Snær Óðinsson 6, Sigtryggur Daði Rúnarsson 6, Arnór Viðarsson 5, Theodór Sigurbjörnsson 3, Dánjal Ragnarsson 3, Gabríel Martinez Róbertsson 2, Elmar Erlingsson 1, Dagur Arnarsson 1, Ísak Rafnsson 1.

mbl.is