Einar Rafn áfram á Akureyri

Einar Rafn Eiðsson í leik með KA gegn Haukum á …
Einar Rafn Eiðsson í leik með KA gegn Haukum á tímabilinu. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Einar Rafn Eiðsson skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild KA og er nú samningsbundinn félaginu til sumarsins 2025.

Einar gekk í raðir KA frá FH fyrir síðasta tímabil og er því að klára sitt annað tímabil með liðinu í vetur.

Sem stendur er Einar Rafn markahæstur í úrvalsdeild karla, Olísdeildinni, með 127 mörk í 18 leikjum.

Hann vakti mikla athygli þegar hann skoraði 17 mörk í leik KA og Gróttu í vetur en þar jafnaði Einar Rafn félagsmet KA. Arnór Atlason skoraði einnig 17 mörk í leik KA gegn Þór tímabilið 2003/2004.

KA hefur átt markakóng deildarinnar síðustu tvö tímabil þar sem Óðinn Þór Ríkharðsson varð markakóngur á síðasta tímabili og Árni Bragi Eyjólfsson tímabilið á undan. Einar Rafn gæti því orðið þriðji markakóngur KA í röð.

„Eru þetta frábærar fréttir enda Einar einn allra besti leikmaður Olísdeildarinnar og algjör lykilmaður í okkar liði,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá handknattleiksdeild KA.

mbl.is