Lykilatriði fyrir íslenskan handbolta

Snorri Steinn Guðjónsson ræðir við sína menn í deildarleik fyrr …
Snorri Steinn Guðjónsson ræðir við sína menn í deildarleik fyrr á árinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valur tekur á móti þýska stórliðinu Göppingen í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildar karla í handknattleik í Origo-höllinni á Hlíðarenda í dag.

Valsmenn höfnuðu í þriðja sæti B-riðils keppninnar, með jafn mörg stig og sænska liðið Ystad IF á meðan Göppingen hafnaði í öðru sæti A-riðils með 16 stig, jafn mörg stig og topplið riðilsins Montpellier.

„Ég er mjög spenntur og þessi leikur leggst hrikalega vel í mig,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsmanna, í samtali við Morgunblaðið á blaðamannafundi liðsins á Hlíðarenda í gær.

„Það er gaman að það sé loksins komið að þessu. Þessi leikur hefur átt sér frekar langan aðdraganda ef svo má segja, allavega lengri en maður hefur vanist, á þessu tímabili hið minnsta. Ég held að ég sé ekki búinn að ofhugsa þennan leik eða neitt slíkt en vissulega greinir maður mikið þegar maður hefur svona mikinn tíma fyrir leik.

Í grunninn þá ertu ekki beint að sjá nýja hluti í hverjum leik heldur er þetta meira bara staðfesting á því sem maður hefur þegar greint ef svo má segja. Þetta snýst meira bara um að reyna að finna ákveðna veikleika hjá mótherjanum en ég ákvað að segja stopp um helgina. Við tókum góðan fund á sunnudaginn, tökum létt æfingu í dag [í gær] og svo bara kýlum við á þetta,“ sagði Snorri Steinn brattur.

Viðtalið við Snorra Stein má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert