Bikarmeistararnir unnu fyrir norðan

Árni Bragi Eyjólfsson sækir að marki KA en hann skoraði …
Árni Bragi Eyjólfsson sækir að marki KA en hann skoraði átta mörk í kvöld. Mbl.is/Kristín Hallgrímsdóttir

Afturelding vann góðan sex marka sigur á KA, 34:28, í Olísdeild karla í handbolta í KA heimilinu á Akureyri í kvöld. 

Jafnræði var á milli liðanna til að byrja með og var staðan jöfn er tíu mínútur voru liðnar, 6:6. Um miðjan fyrri hálfleikinn náðu Mosfellingar góðri forystu og hélt henni meira og minna út hálfleikinn en hálfleikstölur voru 18:15, Aftureldingu í vil. 

Mosfellingar voru sterkari í byrjun síðari hálfleiks og juku aðeins forskot sitt mest í sex mörk, eftir 42. mínútna leik, 24:18. Afturelding hélt þeirri forystu mestmegnis út leikinn og vann að lokum sex marka sigur, 34:28.

Þrátt fyrir tapið fór Einar Rafn Eiðsson á kostum fyrir KA og skoraði 12 mörk. Næst markahæstur var samherji hans Dagur Gautason með níu. Árni Bragi Eyjólfsson var markahæstur í liði Aftureldingar með átta mörk. 

Afturelding er nú með 23 stig, jafnmörg og Selfoss í fjórða sætinu. KA er í þriðja neðsta sæti, tíunda, með 11 stig, þremur stigum fyrir ofan ÍR sem er í fallsæti. 

Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 12, Dagur Gautason 9, Dagur Árni Heimisson 2, Gauti Gunnarsson 2, Ólafur Gústafsson 1, Skarphéðinn Ívar Einarsson 1, Einar Birgir Stefánsson 1.

Varin skot: Bruno Bernat 9. Nicholas Adam Satchwell 0.

Mörk Aftureldingar: Árni Bragi Eyjólfsson 8, Birkir Benediktsson 7, Þorsteinn Leó Gunnarsson 5, Blær Hinriksson 4, Ihor Kopyshynskyi 4, Einar Ingi Hrafnsson 3, Gestur Ólafur Ingvarsson 1, Haraldur Björn Hjörleifsson 1.

Varin skot: Jovan Kukobat 11, Brynjar Vignir Sigurjónsson 5.

mbl.is