Hádramatískur sigur Gróttu á Haukum

Gróttumaðurinn Birgir Steinn Jónsson skoraði níu mörk í kvöld.
Gróttumaðurinn Birgir Steinn Jónsson skoraði níu mörk í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grótta kveikti heldur betur í úrslitakeppnisbaráttunni er liðið vann ótrúlegan sigur á Haukum, 28:27, í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á Ásvöllum í kvöld. 

Gróttumenn voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu með fimm mörkum eftir aðeins tíu mínútna leik, 8:3. Grótta hélt uppteknum hætti áfram og leiddi að lok fyrri hálfleiksins með fimm, 18:13. 

Allt önnur lið mættu til seinni hálfleiksins en Grótta skoraði ekki fyrr en eftir níu mínútur og þá voru Haukar búnir að minnka muninn í tvö, 17:19. Lítið var skorað næstu mínútur en á 44. mínútu voru Haukar búnir að jafna, 19:19. 

Eftir það náði Grótta hinsvegar aftur fínni forystu, 22:19 á 46. mínútu, en missti hana jafnt og þétt niður. Á 58. mínútu komust Haukar svo yfir í fyrsta skipti í leiknum, 26:25. 

Þegar 20. sekúndur voru eftir leiddu Haukar með einu marki, 27:26 en Birgir Steinn Jónsson jafnaði metin í 27:27 og Haukar tóku leikhlé. 

Í næstu sókn héldu Haukar að þeir hefðu skorað er Stefán Rafn Sigurmannsson setti boltann í markið og Gróttumenn geystust í sókn þar sem Birgir Steinn virtist hafa jafnað metin fyrir Gróttu á lokasekúndunum, 28:28.

En í marki sínu steig Stefán á línuna og dómararnir dæmdu eftir því og var því mark Birgis, sigurmark leiksins, 28:27, og Grótta nælir sér í tvö afar mikilvæg stig. 

Birgir Steinn var markahæsti maður leiksins með níu mörk. Næst á eftir honum kom Haukamaðurinn Guðmundur Bragi Ástþórsson með 7. 

Grótta er nú með 15 stig í níunda sæti, tveimur frá Haukum þegar þrír leikir eru eftir. 

Mörk Hauka: Guðmundur Bragi Ástþórsson 7, Geir Guðmundsson 3, Andri Már Rúnarsson 3, Kristófer Máni Jónasson 3, Heimir Óli Heimisson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Stefán Rafn Sigurmannsson 3, Tjörvi Þorgeirsson 1, Adam Haukur Baumruk 1, Þráinn Orri Jónsson 1.

Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 4, Matas Pranckevicus 3. 

Mörk Gróttu: Birgir Steinn Jónsson 9, Jakob Ingi Stefánsson 5, Þorgeir Bjarki Davíðsson 3, Hannes Grimm 3, Theis Koch Sondergard 2, Lúðvík Thorberg Arnkelsson 2, Daníel Örn Griffin 1, Elvar Otri Hjálmarsson 1, Ágúst Emil Grétarsson 1.

Varin skot: Daníel Andri Valtýsson 7, Einar Baldvin Baldvinsson 3.      

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert