Jónatan tekur við Skövde

Jónatan Þór Magnússon.
Jónatan Þór Magnússon. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Handknattleiksþjálfarinn Jónatan Þór Magnússon hefur verið ráðinn nýr þjálfari karlaliðs Skövde, sem leikur í sænsku úrvalsdeildinni. Tekur hann við starfinu fyrir næsta tímabil.

Jónatan hefur stýrt karlaliði KA frá árinu 2019 en gaf það út skömmu fyrir jól að hann hygðist róa á önnur mið að yfirstandandi tímabili loknu.

Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari kvennaliðs Volda í norsku úrvalsdeildinni, tekur við starfi þjálfara karlaliðs KA í sumar.

„Þetta er afar spennandi skref fyrir Jonna en Skövde er afar sterkt lið sem stendur í 5. sæti úrvalsdeildarinnar í Svíþjóð um þessar mundir.

Eins og áður segir hefur Jonni stýrt liði KA frá árinu 2019 en hann hefur á sama tíma verið yfirþjálfari yngriflokka KA og KA/Þórs frá árinu 2016 og verið lykilmaður í gríðarlegri uppbyggingu á yngriflokkastarfi félagsins en fjölmargir titlar hafa unnist á undanförnum árum á sama tíma og fjöldi iðkenda hefur vaxið mikið,“ segir meðal annars í tilkynningu frá handknattleiksdeild KA.

Í tilkynningunni er farið ítarlega yfir leikmanns- og þjálfaraferil Jónatans, sem er uppalinn hjá KA.

mbl.is