Viggó spilar ekki meira á tímabilinu

Viggó Kristjánsson hefur skorað 135 mörk fyrir Leipzig.
Viggó Kristjánsson hefur skorað 135 mörk fyrir Leipzig. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, spilar ekki meira með Leipzig á tímabilinu vegna meiðsla og missir þá um leið af tveimur síðustu leikjum Íslands í undankeppni EM í næsta mánuði.

Leipzig skýrði frá því í dag að myndataka hefði leitt í ljós rifu í hægra læri og það þýði að hann verði frá keppni næstu þrjá mánuðina.

Viggó varð fyrir meiðslunum í leik gegn Erlangen á fimmtudaginn var.

Hann fer beint í aðgerð en þetta er gríðarlegt áfall fyrir lið Leipzig sem freistar þess að ná sjötta sæti þýsku deildarinnar. Hann er þriðji markahæsti leikmaðurinn í deildinni með 135 mörk. Leipzig er í áttunda sæti þegar liðið á eftir ellefu leiki á tímabilinu.

„Ég mun hefja endurhæfinguna strax eftir aðgerðina og er staðráðinn í að vera klár í slaginn á nýjan leik eins fljótt og mögulegt er,“ sagði Viggó á heimasíðu Leipzig í dag en ljóst er að hann mun ekki hefja leik með liðinu á ný fyrr en á næsta tímabili.

Ísland á eftir að mæta Eistlandi og Ísrael í tveimur síðustu leikjum sínum í undankeppni EM í lok apríl og nú eru tvær örvhentar skyttur landsliðsins úr leik því Ómar Ingi Magnússon er einnig frá keppni vegna meiðsla.

mbl.is