Tekur Svíi við íslenska landsliðinu?

Aron Pálmarsson og Ómar Ingi Magnússon eru lykilmenn í íslenska …
Aron Pálmarsson og Ómar Ingi Magnússon eru lykilmenn í íslenska landsliðinu. mbl.is/Kristinn Magnusson

Sænski handknattleiksþjálfarinn Michael Apelgren er einn þeirra sem kemur sterklega til greina sem næsti þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik.

Þetta herma heimildir mbl.is og Morgunblaðsins.

Apelgren, sem er 38 ára gamall, hefur stýrt Sävehof í sænsku úrvalsdeildinni frá árinu 2020 og þá er hann einnig aðstoðarþjálfari sænska karlalandsliðsins.

Hann hefur einnig stýrt Elverum á þjálfaraferlinum, árin 2014 til 2020, og gerði hann liðið sex sinnum að Noregsmeisturum, árin 2015, 2016, 2017, 2018, 2019 og 2020.

Þá gerði hann Sävehof að sænskum meisturum árið 2021 og bikarmeisturum árið 2022.

HSÍ, handknattleikssamband Íslands, leitar nú að nýjum þjálfara eftir að Guðmundur Þórður Guðmundsson lét óvænt af störfum sem þjálfari liðsins í lok febrúar.

Gunnar Magnússon, Ágúst Þór Jóhannsson og Guðmundur Þórður Guðmundsson á …
Gunnar Magnússon, Ágúst Þór Jóhannsson og Guðmundur Þórður Guðmundsson á góðri stundu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjöldi þjálfara orðaðir við starfið

Ágúst Jóhannsson og Gunnar Magnússon munu stýra liðinu út undankeppni EM 2024 sem lýkur í apríl en þeir voru aðstoðarmenn Guðmundar með liðið.

Fjöldi þjálfara hafa verið orðaðir við starfið en HSÍ hefur nú þegar sett sig í samband við nokkra þeirra, með það fyrir augum að þeir taki við liðinu.

Heimildir Morgunblaðsins herma hins vegar að engar formlegar viðræður hafi enn þá átt sér stað en til stendur að þær hefjist á næstu vikum.

Dagur Sigurðsson, landsliðþjálfari Japan, og Kristján Andrésson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Svíþjóðar, hafa báðir líst yfir áhuga sínum á því að taka við íslenska liðinu og koma þeir einnig sterklega til greina, sem og Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals.

Michael Apelgren er núna þjálfari sænska úrvalsdeildarfélagsins Sävehof.
Michael Apelgren er núna þjálfari sænska úrvalsdeildarfélagsins Sävehof. Ljósmynd/Sävehof
mbl.is