Kristján sakar Björgvin um að senda sér niðrandi skilaboð

Kristján Örn Kristjánsson og Björgvin Páll Gústavsson á góðri stundu.
Kristján Örn Kristjánsson og Björgvin Páll Gústavsson á góðri stundu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Handknattleiksmaðurinn Kristján Örn Kristjánsson segist hafa fengið send niðrandi skilaboð frá leikmanni Vals fyrir leik liðsins gegn Aix í B-riðli Evrópudeildarinnar sem fram fór á Hlíðarenda þann 21. febrúar.

Þetta tilkynnti hann í samtali við Vísi í morgun en hann greindi frá því að um miðjan febrúar að hann væri að glíma við kulnun í starfi og því kom það mörgum á óvart að hann skildi spila leikinn.

„Kvöldið fyrir leik fékk ég skilaboð frá andstæðingi í hinu liðinu sem mér þóttu ekki vera ásættanleg,“ sagði Kristján í samtali við Vísi.

Kristján Örn Kristjánsson greindi frá því um miðjan febrúar að …
Kristján Örn Kristjánsson greindi frá því um miðjan febrúar að hann væri að glíma við kulnun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Endurhugsaði endurkomuna

„Þau drógu mig aðeins niður og fengu mig til að endurhugsa endurkomuna. Hann sagðist ekki alveg vera að skilja þetta „bíó“ hjá mér. Hvað ég væri að segja í fjölmiðlum að ég væri ekki að fara að spila og væri svo allt í einu mættur á sviðið.

Ég veit ekki hvort hann hélt að ég væri að „feika“ eitthvað og með einhver trix til að reyna að rústa Völsurunum. En hann vissi bara ekki neitt um hvað var í gangi á bak við tjöldin. Það að hann skyldi ekki hringja í mig í staðinn fyrir að senda mér svona skilaboð er bara eins og að sparka í liggjandi mann. Það er bara niðurstaðan,“ sagði Kristján.

Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björgvin Páll sendi skilaboðin

Björgvin Páll Gústavsson, leikmaður Vals og markvörður íslenska landsliðsins, greindi frá því á Facebook í morgun að hann hefði sent Kristjáni skilaboðin.

„Ég er þannig gerður ég vil frekar tala við fólk en um fólk,“ skrifaði Björgvin í færslunni sem hann birti.

„Það er einmitt þannig sem að skilaboðin mín á Kristján byrjuðu en ég sendi skilaboðin ekki sem Valsari heldur sem liðsfélagi hans úr landsliðinu. Án þess að fara of ítarlega ofan í þessu skilaboð, sem ég hélt að væru okkar á milli, þá var tilgangur þeirra að fá hann til þess að endurhugsa endurkomuna og fá hann til að setja heilsuna í fyrsta sætið.

Daginn áður hafði ég komið mjög illa út úr viðtali þar sem ég óskaði honum góðs bata í þessu langa og erfiða ferli sem kulnun er og eins sendi ég honum skilaboð þar sem ég sagði honum að ég væri alltaf til staðar fyrir hann og að handboltinn væri aukaatriði,“ sagði Björgvin meðal annars en færslu hans í heild sinni má sjá fyrir neðan.

Kristján Örn Kristjánsson og Björgvin Páll Gústavsson á æfingu íslenska …
Kristján Örn Kristjánsson og Björgvin Páll Gústavsson á æfingu íslenska landsliðsins á HM í Svíþjóð í janúar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is