Stjarnan sannfærandi gegn Selfossi

Gunnar Steinn Jónsson lék vel með Stjörnunni í kvöld.
Gunnar Steinn Jónsson lék vel með Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjörnumenn tóku á móti Selfyssingum í tuttugustu umferð Olís-deildar karla í handbolta kvöld. Liðin sátu í sjötta og sjöunda sæti fyrir þennan leik, gestirnir tveimur stigum ofar en heimamenn.

Fyrirfram var búist við hörkuleik en annað kom þó á daginn. Heimamenn í Stjörnunni voru með mikla yfirburði allan leikinn og unnu sannfærandi sigur að lokum, 33:26.

Það var mikið jafnræði með liðunum í byrjun leiksins. Selfyssingar skoruðu fyrsta mark leiksins og voru með frumkvæðið fyrstu níu mínútur leiksins. Þá komust Stjörnumenn í fyrsta skipti yfir þegar Gunnar Steinn Jónsson skoraði sitt þriðja mark í leiknum, 5:4.

Stjörnumenn gengu á lagið og náðu fjögurra marka forystu þegar Björgvin Hólmgeirsson var manna fyrstur fram í hraðaupphlaup. Staðan orðin 12:8. 

Á fyrstu tuttugu mínútum leiksins höfðu markmenn Selfyssinga aðeins varið eitt skot. Vilius Ramas, markvörður Selfyssinga, náði sér þó aðeins á strik undir lok fyrri hálfleiks og endaði hann með fjögur varin skot.

Selfyssingar komust þrisvar í yfirtölu í fyrri hálfleik en töpuðu ölllum þeim köflum er þeir voru manni fleiri og setti það tóninn fyrir það sem koma skyldi. Heimamenn í Stjörnunni gengu á lagið og voru með sjö marka forystu þegar flautað var til hálfleiks, 19:12.

Selfyssingar hófu síðari hálfleikinn betur og minnkuðu muninn í sex mörk þegar Atli Ævar Ingólfsson skoraði fallegt mark af línunni. 20:14.

Þeir náðu svo að minnka muninn niður í fjögur mörk, 22:18 þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum. Þá fengu Selfyssingar tvær brottvísanir með tíu sekúndna millibili og Stjörnumenn juku muninn aftur upp í sex mörk. 24:18.

Þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum voru heimamenn komnir með átta marka forystu og áttu Selfyssingar engin svör við sóknarleik Garðbæinganna, 27:19. Leikurinn fjaraði síðan út og endaði með sannfærandi sjö marka sigri heimamanna, 33:26.

Gunnar Steinn Jónsson var markahæstur heimamanna með sjö mörk, þar af komu sex þeirra í fyrri hálfleik. Þórður Tandri Ásgeirsson skilaði sex mörkum af línunni og Hergeir Grímsson var með fimm mörk skoruð. Adam Thorstensen varði ellefu skot í kvöld og Arnór Freyr Stefánsson kom inn á og varði tvö vítaskot.

Hjá Selfyssingum var Atli Ævar Ingólfsson markahæstur með sex mörk og Einar Sverrisson skoraði fimm. Jón Þórarinn Þorsteinsson byrjaði leikinn í markinu en varði aðeins eitt skot. Vilius Rasimas kom inn á og varði tíu skot fyrir gestina.

Eftir þennan leik eru liðin jöfn að stigum í sjötta og sjöunda sæti deildarinnar. Stjörnumenn eru hinsvegar komnir upp fyrir Selfyssinga á úrslitum innbyrðis en Stjörnumenn unnu báða leikina gegn Selfyssingum þetta tímabilið.

Næsti leikur Stjörnumanna er heimaleikur á móti deildarmeisturum Val en Selfyssingar fá nýkrýnda bikarmeistara Aftureldingu í heimsókn.

Stjarnan 33:26 Selfoss opna loka
60. mín. Stjarnan tapar boltanum
mbl.is