Sannfærandi íslenskur sigur í Ísrael

Kristján Örn Kristjánsson var markahæstur í íslenska liðinu.
Kristján Örn Kristjánsson var markahæstur í íslenska liðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland vann sannfærandi 37:26-útisigur á Ísrael í 3. riðli í undankeppni Evrópumóts karla í handbolta í Tel Aviv í dag. Íslenska liðið var með 19:11 forskot í hálfleik og var sigurinn aldrei í hættu.

Með sigrinum er ljóst að Íslandi nægir að vinna Eistland á heimavelli á sunnudaginn kemur til að vinna riðilinn og að vera í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla á lokamótinu í Þýskalandi.

Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar og var staðan 4:4 eftir átta mínútna leik. Þá tók íslenska liðið hins vegar völdin og skoraði fimm af næstu sex mörkum. Var staðan 10:6, þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður.

Viktor Gísli Hallgrímsson átti góðan leik.
Viktor Gísli Hallgrímsson átti góðan leik. mbl.is/Óttar Geirsson

Ísrael minnkaði muninn í 11:9, en Ísland svaraði með 8:1 kafla og var munurinn því átta mörk í hálfleik, 19:11. Kristján Örn Kristjánsson fann sig mjög vel og skoraði sex mörk. Bjarki Már Elísson var með fjögur og Janus Daði Smárason þrjú, en hann gerði þrjú af fyrstu fjórum mörkum Íslands.

Þá stóð Viktor Gísli Hallgrímsson vaktina í marki Íslands gríðarlega vel og varði 13 skot, nokkur þeirra úr mjög góðum færum.  

Ísland byrjaði seinni hálfleikinn ágætlega og Sigvaldi Björn Guðjónsson kom Íslandi tíu mörkum yfir í fyrsta sinn í stöðunni 24:14, þegar tæpar tíu mínútur voru búnar af síðari hálfleik.

Elvar Örn Jónsson stóð vel fyrir ´sinu.
Elvar Örn Jónsson stóð vel fyrir ´sinu. mbl.is/Óttar Geirsson

Sá munur hélst meira og minna það sem eftir lifði leiks, þar sem liðin skiptust á að skora. Að lokum voru það ellefu mörk sem skildu að og fagmannlega afgreitt verkefni hjá Íslandi, gegn slakari andstæðingi.

Kristján Örn var markahæstur í íslenska liðinu með átta mörk, Elvar Örn Jónsson gerði sex og þeir Sigvaldi Björn Guðjónsson og Teitur Örn Einarsson gerðu fimm hvor. Viktor Gísli varði 19 skot í markinu.

Ísrael 26:37 Ísland opna loka
60. mín. Yonatan Dayan (Ísrael) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert