Vilja að Alfreð verði leystur frá störfum

Alfreð Gíslason þungt hugsi á hliðarlínunni.
Alfreð Gíslason þungt hugsi á hliðarlínunni. Ljósmynd/@DHB_Teams

Þjóðverjar skiptast í tvær fylkingar þegar kemur að landsliðsþjálfaranum Alfreð Gíslasyni en hann hefur stýrt karlalandsliði Þýskalands í handknattleik frá árinu 2020.

Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun þýska miðilsins Spiegel þar sem er meðal annars rætt við Karsten Günther, yfirmanns íþróttamála hjá þýska 1. deildarfélaginu Leipzig.

Frá því Günther, sem er 41 árs gamall, tók til starfa hjá Leipzig hefur uppgangur félagsins verið mikill og er hann meðal annars í stjórn þýsku 1. deildarinnar í dag.

Evrópumótið fer fram í Þýskalandi í janúar á næsta ári og ætla Þjóðverjar sér stóra hluti á heimavelli en Günther hefur áður gagnrýnt Alfreð og kallað eftir því að hann verði leystur frá störfum.

Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. AFP

Hafa tekið skref aftur á bak

„Ég er langt frá því að vera sá eini sem hef áhyggjur af stöðu mála,“ sagði Günther í samtali við Spiegel.

Þegar Günther gagnrýndi Alfreð í mars á þessu ári talaði hann meðal annars um að landsliðið hefði tekið skref aftur á bak frá því að Íslendingurinn tók við liðinu.

„Hann þarf sterkan aðstoðarþjálfara með sér sem fær leikmennina til þess að trúa á hugmyndafræði þjálfarans, ef hún er þá til staðar. Ef það gengur ekki þarf að skipta um þjálfara sem fyrst.

Það er klárt mál að Alfreð er með fólk í kringum sig sem er ekki að andmæla honum eitthvað sérstaklega,“ bætti Günther svo við.

Alfreð Gíslason á hliðarlínunni hjá Þýskalandi á HM 2021 í …
Alfreð Gíslason á hliðarlínunni hjá Þýskalandi á HM 2021 í Egyptalandi. AFP

Hefur trú á Alfreð

Þá hefur Bob Hanning, fyrrverandi aðstoðarþjálfari þýska liðsins frá 2013 til 2021 einnig kallað eftir því að það verði gerðar þjálfarabreytingar hjá landsliðinu.

„Við verðum að vakna núna,“ skrifaði Hanning meðal annars í pistil sem hann birti í þýska miðlinum Kicker en Hanning starfar í dag sem framkvæmdastjóri Füchse Berlín.

„Handboltahreyfingin í Þýskalandi er klofin í tvennt þegar kemur að Alfreð Gíslasyni,“ segir meðal annars í lokaorðum Spiegel.

„Alfreð er maður sem Uwe Schwenker, formaður þýska sambandsins, hefur miklar mætur og trú á og á meðan hann er formaður mun áfram ríkja klofnngur um störf Alfreðs,“ segir enn fremur í umfjölluninni.

Alfreð Gíslason hefur stýrt þýska landsliðinu frá 2020.
Alfreð Gíslason hefur stýrt þýska landsliðinu frá 2020. AFP/Franck Fife
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert