Úrslitin ráðast í oddaleik eftir sigur Hauka

Guðmundur Bragi Ástþórsson sækir að marki ÍBV í kvöld.
Guðmundur Bragi Ástþórsson sækir að marki ÍBV í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Haukar tryggðu sér oddaleik gegn ÍBV í úrslitaeinvígi liðanna á Íslandsmóti karla í handbolta með 27:24-heimasigri á Ásvöllum í fjórða leik liðanna í kvöld. Oddaleikurinn fer fram í Vestmannaeyjum á miðvikudaginn kemur.

ÍBV vann tvo fyrstu leiki einvígisins og hafa Haukar því gert gríðarlega vel í að jafna og knýja fram oddaleik.

Haukar byrjuðu mun betur og komust í 5:1 strax í upphafi leiks. Á þeim kafla varði Aron Rafn Eðvarðsson m.a. víti frá Elmari Erlingssyni og voru hlutirnir ekki að ganga upp hjá gestunum.

Haukar héldu því forskoti næstu mínútur og munaði enn fjórum mörkum þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður, 9:5. Þá skoruðu Haukar tvö mörk í röð og komust sex mörkum yfir í fyrsta sinn, 11:5.

Haukaliðið fékk mikið úr hægri skyttustöðunni fyrri hluta fyrri hálfleiks og Ólafur Ægir Ólafsson og Geir Guðmundsson skiptust á að skora falleg mörk. Þá lék Andri Már Rúnarsson einnig vel vinstra megin og margir að leggja sitt á mörkum hjá heimamönnum.

Hinum megin voru Arnór Viðarsson og Rúnar Kárason að halda Eyjamönnum í leiknum, en þeir gerðu sex af fyrstu sjö mörkum ÍBV, þrjú hvor.

Munurinn varð sjö mörk í fyrsta sinn í stöðunni 15:8, þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Hann varð mestur átta mörk í hálfleiknum, 16:8. Að lokum munaði sjö mörkum í leikhléi, 17:10, og Haukar í afar góðum málum.

Haukar voru með undirtökin frá fyrstu mínútu í fyrri hálfleik og Eyjamenn áttu í vandræðum með góða vörn heimamanna. Þar fyrir aftan datt Aron Rafn Eðvarðsson í gang og varði vel . Í sókninni voru margir að leggja í púkkið hjá Haukamönnum og um góða liðsframmistöðu að ræða.

Eyjamenn hleyptu Haukum ekki nær sér í upphafi seinni hálfleiks og munurinn var átta mörk þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum, 22:14. Var lítið skorað næstu mínútur, en munurinn var sjö mörk þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, 23:16.

Þá kom flottur kafli hjá ÍBV og Rúnar Kárason minnkaði muninn í fimm mörk í fyrsta skipti í seinni hálfleik, 25:20, þegar tíu mínútur voru eftir. Var um þriðja mark ÍBV í röð að ræða og ljóst að gestirnir ætluðu að selja sig dýrt á lokakaflanum.

Kári Kristján Kristjánsson minnkaði muninn í þrjú mörk, 27:24, þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka. Hvorugu liði tókst hins vegar að skora eftir það og þriggja marka sigur Hauka varð raunin.

Andri Már Rúnarsson var markahæstur í liði Hauka með sjö mörk og Stefán Rafn Sigurmannson skoraði fimm. Rúnar Kárason skoraði sjö fyrir ÍBV og Arnór Viðarsson fimm. 

Haukar 27:24 ÍBV opna loka
60. mín. Aron Rafn Eðvarðsson (Haukar) ver víti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert