Ekki eins og ég sé að vaka heila vetrarvertíð

Kári Kristján Kristjánsson var einstaklega kátur í leikslok.
Kári Kristján Kristjánsson var einstaklega kátur í leikslok. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Nú líður mér alveg ótrúlega vel. Þetta fer mjög hátt á listann yfir það skemmtilegasta sem ég hef gert,“ sagði einstaklega kátur Kári Kristján Kristjánsson í samtali við mbl.is eftir að hann varð Íslandsmeistari í handbolta með ÍBV.

Kári er uppalinn í Vestmannaeyjum og var Eyjaliðið langt frá toppnum þegar hann var að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki.

„Þetta er algjörlega ólýsanlegt. Ég elst upp við að karlalið ÍBV sé ekki stórveldi í íslenskum handbolta. Við vorum ekkert sérstakir, ef við leggjum spilin á borðin. Ég var 15 að verða 16 þegar ég spilaði fyrsta leikinn í efstu deild. Að vera svo hér og vinna Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli er eitthvað sem mér óraði aldrei fyrir,“ sagði Kári.

Kári Kristján í eldlínunni í kvöld.
Kári Kristján í eldlínunni í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV vann fyrstu tvo leiki einvígisins, en Haukar næstu tvo eftir það. Leikurinn í kvöld var því oddaleikur og allt undir.

„Við komumst í 2:0 á kóngabláum iðnaði. Við spiluðum stórskrítinn leik þrjú, sem verður lengi í minnum haft. Við áttum aldrei möguleika þar. Veðrið var bara þannig. Við vorum lélegri í fjórða leik, en í kvöld vorum við yfir allan tímann. Við erum besta lið á Íslandi, óumdeilt.“

Kári er orðinn 38 ára gamall og í miklum átökum í hverjum einasta leik. Hann vildi lítið gera úr því.

„Þetta er ekkert mál. Það er ekki eins og ég sé að vaka heila vetrarvertíð. Þetta er bara einn handboltaleikur og svo er það bara Pepsi Max og Þristur,“ sagði línumaðurinn. Hann ætlar að taka eitt tímabil í viðbót.

„Ég var búinn að láta plata mig í eitt í viðbót. Það er kannski vitleysa í mér. Ég hefði kannski átt að hætta núna á toppnum. En ég elska handbó,“ sagði Kári Kristján, laufléttur og skemmtilegur að vanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert