Laun annarra landsliðsþjálfara eru miklu hærri

Snorri Steinn Guðjónsson og Guðmundur Bl Ólafsson formaður HSÍ á …
Snorri Steinn Guðjónsson og Guðmundur Bl Ólafsson formaður HSÍ á fundinum í dag. mbl.is/Eggert

Snorri Steinn Guðjónsson var í dag ráðinn þjálfari karlaliðs Íslands í handbolta. Hætti hann þjálfun karlaliðs Vals í leiðinni og fer í fullt starf við landsliðsþjálfun. Undanfarin ár hefur starf landsliðsþjálfara verið hlutastarf.

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, ræddi muninn í samtali við mbl.is í dag, en Snorri lét af störfum sem þjálfari Vals þegar hann skrifaði undir hjá HSÍ. 

„Fyrsta krafan okkar var að hann myndi ekki þjálfa á Íslandi. Svo er það matsatriði hvort við eigum að leyfa mönnum að þjálfa félagslið eða ekki. Sumir segja að þú hafir ekki næga einbeitingu í að þjálfa landsliðið ef þú ert líka að þjálfa félagslið.

Öðrum finnst betra að þjálfa félagslið líka, því þá ertu í æfingu. Þú ert heitur þegar kemur að mótinu, en ekki bara að stýra sjö leikjum á ári. Þetta eru skiptar skoðanir,“ sagði Guðmundur.

Snorri mun hjálpa til við að auka sýnileika handbolta á Íslandi og þá mun hann móta stefnu sem yngri landsliðin munu fylgja, eins og A-landsliðið. 

„Snorri kemur meira að útbreiðslu en forveri hans, vegna starfa hans erlendis. Snorri sér meira um tengingu í yngri landsliðin og að við séum að móta stefnu með þeim. Við viljum að yngri landsliðin spili sama bolta og A-liðið og að því sé fylgt eftir. Þannig nýtast kraftar hans allt árið,“ sagði Guðmundur.

Hann viðurkenndi að það væri dýrara fyrir HSÍ að ráða mann í fullt starf, en þó eru laun landsliðsþjálfara Íslands lægri en víðast hvar.

„Peningamálin í þessu eru sem betur fer þannig að laun annarra landsliðsþjálfara eru miklu hærri en hjá okkur. Það er mikill áhugi fyrir starfinu. Það var sama við hvern við töluðum, það var mikill áhugi. Þetta er kostnaðarauki en ekki þannig að hann sé að sliga okkur,“ sagði formaðurinn.

mbl.is