Tilvonandi Íslendingaliðið fallið

Sveinn Jóhannsson og félagar í Minden eru fallnir niður í …
Sveinn Jóhannsson og félagar í Minden eru fallnir niður í þýsku B-deildina. Ljósmynd/Minden

Minden er fallið úr þýsku 1. deildinni í handknattleik karla eftir stórt tap fyrir Íslendingaliði Magdeburg, 30:44, í kvöld.

Sveinn Jóhannsson leikur með Minden og skoraði eitt mark fyrir liðið í kvöld.

Fleiri Íslendingar eru á leið til Minden í sumar þar sem Aðalsteinn Eyjólfsson tekur við þjálfun liðsins og Bjarni Ófeigur Valdimarsson gengur til liðs við félagið frá sænska félaginu Skövde.

Íslendingarnir munu því freista þess að koma Minden strax upp úr B-deildinni á næsta tímabili.

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon léku hvorugir með Magdeburg í kvöld vegna meiðsla.

Magdeburg er í öðru sæti með 53 stig, jafnmörg og topplið Kiel sem á auk þess leik til góða þegar skammt er eftir af tímabilinu. Magdeburg á eftir tvo leiki og Kiel þrjá.

Níu íslensk mörk

Arnar Freyr Arnarsson skoraði fjögur mörk og gaf eina stoðsendingu að auki þegar lið hans Melsungen vann góðan 26:23-sigur á Göppingen.

Elvar Örn Jónsson lék ekki með Melsungen vegna meiðsla.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði fimm mörk fyrir Bergischer sem mátti sætta sig við stórt tap, 29:39, gegn Rhein-Neckar Löwen.

Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað hjá Löwen.

Loks vann Leipzig sterkan 31:28 sigur á Hamburg á útivelli.

Viggó Kristjánsson lék ekki með Leipzig vegna meiðsla. Rúnar Sigtryggsson þjálfar liðið.

mbl.is