„Þá verður Arnór mættur á svæðið til þess að knúsa mig“

Snorri Steinn Guðjónsson skrifaði undir þriggja ára samning og er …
Snorri Steinn Guðjónsson skrifaði undir þriggja ára samning og er samningsbundinn til sumarsins 2026. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér líður virkilega vel og það er gott að geta loksins kallað sig landsliðsþjálfara Íslands,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið á aðalskrifstofu Icelandair við Reykjavíkurflugvöll í gær en þar var hann kynntur til leiks af Handknattleikssambandi Íslands.

Snorri Steinn, sem er 41 árs gamall, hefur stýrt karlaliði Vals í úrvalsdeildinni frá árinu 2017 og undir hans stjórn urðu Valsmenn tvívegis Íslandsmeistarar og tvívegis bikarmeistarar.

Hann lék sem atvinnumaður um árabil með Grosswallstadt, Minden og Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi, AG Köbenhavn og GOG í Danmörku og Séléstat og Nimes í Frakklandi en hann lagði skóna á hilluna árið 2018.

Þá var hann lykilmaður í íslenska landsliðinu um árabil, lék 257 A-landsleiki og skoraði í þeim 846 mörk, ásamt því að vinna til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og bronsverðlauna á Evrópumótinu 2010 í Austurríki.

„Þetta hefur haft sinn aðdraganda og allt það en ég neita því ekki að það er gott að þurfa ekki að tala í kringum hlutina lengur, ég er orðinn landsliðsþjálfari og það er hægt að tala við mig sem slíkan núna,“ sagði Snorri Steinn.

Ekki á samfélagsmiðlum

Miklar væntingar eru gerðar til liðsins og krafan um verðlaun á stórmóti eykst með hverju árinu sem líður.

„Ég get ekki sagt að ég finni fyrir einhverri pressu akkúrat núna en ég finn klárlega fyrir öllu umtalinu í kringum þetta. Ég er rosalega góður í því að vera ekki á samfélagsmiðlum, þeir trufla mig lítið og hafa aldrei gert. Það er einn af mínum kostum myndi ég segja en ég geri mér grein fyrir pressunni sem fylgir þessu starfi. Á sama tíma óttast ég hana ekki neitt.

Ég tel mig geta valdið þessu starfi og sú tilfinning er yfirsterkari en allt annað. Auðvitað óttast maður að allt geti farið á versta veg í janúar en ég hef trú á mér og liðinu. Svo getur vel verið að maður fá eitthvað kvíðakast þegar maður sest upp í flugvél í janúar en þá verður Arnór mættur á svæðið til þess að knúsa mig,“ bætti Snorri Steinn við í samtali við Morgunblaðið.

Viðtalið við Snorra Stein má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert