Kiel nálgast titilinn

Arnar Freyr Arnarsson var markahæstur í sínu liði.
Arnar Freyr Arnarsson var markahæstur í sínu liði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kiel steig mikilvægt skref í átt að Þýskalandsmeistaratitlinum í handbolta með því að hafa betur gegn Arnóri Þór Gunnarssyni og félögum í Bergischer, 29:26, í 1. deildinni í dag.

Arnór Þór komst ekki á blað að þessu sinni. Kiel er nú með 53 stig á toppnum, tveimur stigum fyrir ofan Íslendingalið Magdeburg, sem lék ekki um helgina, og stendur Kiel auk þess betur að vígi í innbyrðis viðureignum. Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon eru báðir frá vegna meiðsla hjá Magdeburg.

Þegar tvær umferðir eru óleiknar á Kiel eftir að mæta Wetzlar og Göppingen og telst sigurstranglegri í báðum viðureignum. Sem endranær var fjöldi Íslendinga í eldlínunni.

Íslendingalið Gummersbach mátti sætta sig við tap með minnsta mun á útivelli gegn Stuttgart, 31:30. Elliði Snær Viðarsson skoraði tvö mörk fyrir Gummersbach og gaf eina stoðsendingu að auki en Hákon Daði Styrmisson komst ekki á blað. Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar liðið.

Arnar Freyr Arnarsson var markahæstur í liði Melsungen með fimm mörk þegar liðið vann góðan 27:25-sigur á Wetzlar á útivelli. Elvar Örn Jónsson lék ekki með liðinu vegna meiðsla.

Teitur Örn Einarsson skoraði tvö mörk fyrir Flensburg í 30:35-tapi fyrir Hannover-Burgdorf, þar sem Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari. Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað hjá Rhein-Neckar Löwen þegar liðið gjörsigraði Erlangen, 40:23. Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari Erlangen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert