„Á hverjum einasta degi hugsa ég um vítið“

„Á hverjum einasta degi hugsa ég um vítið,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í Dagmálum.

Snorri Steinn, sem er 41 árs, var í lykilhlutverki með íslenska landsliðinu um árabil og vann til tvennra verðlauna með því; á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og á EM í Austurríki árið 2010.

Ísland var nálægt því að leika um verðlaun á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012 en liðið fékk vítakast undir lok leiksins gegn Ungverjalandi í 8-liða úrslitum en Nándor Fazekas varði vítakast Snorra Steins.

Ótrúlega erfitt

Ungverjar brunuðu upp í sókn, jöfnuðu metin í 27:27 og Ungverjar unnu svo leikinn 34:33 eftir tvíframlengdan leik.

„Það var ótrúlega erfitt, ótrúlega lengi, en svo hef ég lært að faðma þetta aðeins,“ sagði Snorri Steinn.

„Ég sé ekki eftir því að hafa tekið vítið en ég tók risatækifæri, risadraum hjá mér og öllu liðinu, frá þeim. Þetta er ekki vesen fyrir mig í dag en ég hugsaði alltaf um þetta þegar ég tók önnur víti,“ sagði Snorri Steinn meðal annars.

Viðtalið við Snorra Stein í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Snorri Steinn Guðjónsson býr sig undir að taka vítakastið örlagaríka.
Snorri Steinn Guðjónsson býr sig undir að taka vítakastið örlagaríka. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert