„Ég sé það með hverju árinu sem líður hversu góð áhrif hann hafði á mig og minn feril,“ sagði landsliðsfyrirliðinn og handboltamaðurinn Aron Pálmarsson í Dagmálum.
Aron, sem er 33 ára gamall, gekk til liðs við þýska stórliðið Kiel sumarið 2009 en Alfreð Gíslason var þá þjálfari liðsins.
„Hann kunni mjög vel á mig og ég gleymi því aldrei hvernig hann tók mig einu sinni á einni æfingunni,“ sagði Aron.
„Hann hvíslaði því í eyrað á mér að ég gæti ekki fintað til vinstri. Ég fer svo til hans eftir æfinguna og spyr hann hvort hann hafi verið að meina þetta og hann segir já.
Ég segi bara að ég geti fintað til vinstri og verð alveg brjálaður. Ég fer svo út í bíl, bölvandi honum og segi við sjálfan mig hvað hann haldi eiginlega að hann sé,“ sagði Aron meðal annars.
Viðtalið við Aron í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.