Besti leikur Ómars eftir meiðslin

Ómar Ingi Magnússon er óðum að ná fyrri styrk.
Ómar Ingi Magnússon er óðum að ná fyrri styrk. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ómar Ingi Magnússon átti stórleik er Magdeburg vann 35:28-heimasigur á Lemgo í þýsku 1. deildinni í handbolta í dag.

Skoraði Ómar níu mörk fyrir Evrópumeistarana, sem er það mesta sem hann hefur skorað í leik með Magdeburg frá því hann skoraði tólf gegn PSG á útivelli í Meistaradeildinni 14. desember á síðasta ári.

Ómar meiddist með íslenska landsliðinu á HM í Svíþjóð í janúar og var frá keppni í átta mánuði. Hann er óðum að ná fyrri styrk, eins og frammistaðan í dag sýnir.

Janus Daði Smárason komst ekki á blað hjá Magdeburg og Gísli Þorgeir Kristjánsson er frá keppni vegna meiðsla.

Magdeburg er í þriðja sæti deildarinnar með átta stig eftir fimm leiki, tveimur stigum á eftir Melsungen og  Füchse Berlin.

mbl.is