Valsmenn áfram í Evrópubikarnum

Valsmenn fagna, mynd úr safni.
Valsmenn fagna, mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur bar sigur úr býtum gegn Granitas Karys, 33:28, í seinni leik liðanna í 1. umferð Evrópubikars karla í handbolta. Báðir leikirnir fóru fram í Litháen.

Leikurinn var mjög jafn til að byrja með og skiptust liðin á að skora fyrstu 15 mínúturnar þegar Valsararnir náðu yfirhöndinni í leiknum og settu aukna pressu á Granitas. Hálfleikstölur 17:12 Val í vil.

Valsmenn héldu uppteknum hætti í seinni hálfleiknum og leyfðu leikmönnum Granitas Karys aldrei að komast inn í leikinn. Munurinn var mestur þegar 8 mínútur voru eftir af leiknum en þá var staðan orðin 29:20, Val í vil. Granitas-menn reyndu allt hvað þeir gátu til þess að koma til baka og vinna upp markamuninn en allt kom fyrir ekki og lokatölurnar því 33:28.

Valsmenn mæta Pölva  Serviti frá Eistlandi í 2. umferð í október.

Mörk Vals: Úlfar Páll Monsi Þórðarson 6, Tjörvi Týr Gíslason 6, Magnús Óli Magnússon 5, Ísak Gústafsson 3, Benedikt Gunnar Óskarsson 3, Alexander Pettersson 2, Allan Nordberg 2, Viktor Sigurðsson 2, Agnar Jónsson 1, Aron Pálsson 1, Robert Hostert 1, Andri Finnsson 1.

mbl.is