Flýgur heim frá Danmörku í leiki

Sylvía Björt Blöndal í leik með Aftureldingu á síðasta tímabili.
Sylvía Björt Blöndal í leik með Aftureldingu á síðasta tímabili. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Sylvía Björt Blöndal, lykilmaður nýliða Aftureldingar í úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna, lætur það að vera í krefjandi meistaranámi í Danmörku ekki stöðva sig í að taka þátt í leikjum liðsins.

Fyrr í mánuðinum var greint frá því að Sylvía Björt myndi ekki geta tekið þátt á tímabilinu vegna námsins en hefur nú fundist lausn sem gerir henni kleift að spila leikina.

„Námið hefur að sjálfsögðu algjöran forgang en Sylvía kemur heim og verður með okkur í þeim leikjum sem hún hefur tök á að taka þátt í,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Aftureldingar, í samtali við Handbolta.is.

Þar kemur fram að Afturelding greiði allan ferðakostnað fyrir Sylvíu Björt.

mbl.is