Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar var ánægður með lokakaflann hjá sínum leikmönnum í kvöld þegar Afturelding vann Fram 32:30 eftir æsispennandi lokakafla í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld.
„Ótrúlegur karakter hjá mínum mönnum að vinna þennan leik. Við vorum í basli í 40 mínútur og talsvert frá okkar besta leik. Fram voru betri en við í 40 mínútur og ég er alls ekki sáttur við okkar frammistöðu fyrstu 40 mínútur leiksins.”
Eins og þú segir þá voruð þið langt frá ykkar besta framan af og þínir bestu leikmenn voru að fara mjög illa með góð færi. Hvað veldur?
„Það vantaði bara mjög mikið upp á. Við klúðrum þremur vítum og lykilmenn voru langt frá sínu besta í 40 mínútur en það jákvæða var að okkur tókst að halda Rúnari niðri og koma til baka og snúa þessum leik okkur í hag.”
Þú tekur leikhlé eftir 38 mínútna leik og eftir það hefst ykkar viðsnúningur í leiknum. Hvað sagðir þú við strákana?
„Ég kallaði bara eftir alvöru karakter og benti strákunum á að það væri ekkert að getunni, þetta væri bara í hausnum á þeim og þeir vöknuðu.”
Um dómgæsluna hafði Gunnar þetta að segja:
„Dómararnir voru í miklu basli í kvöld alveg eins og bæði liðin. Það voru allir á vellinum í basli í kvöld, dómarar og leikmenn og það hallaði ekkert meira á annað liði en hitt að mínu mati en þeir áttu slæman leik í kvöld eins og bæði liðin,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is