Dómarar þurfa vinnufrið en það er byrjað á öfugum enda

Einar Jónsson á hliðarlínunni í kvöld.
Einar Jónsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Jónsson þjálfari Fram var mjög ánægður með margt í leik sinna manna þrátt fyrir 32:30 tap gegn Aftureldingu í æsispennandi leik í úrvalsdeild karla í handknattleik í Úlfarsárdal í kvöld þar sem dómarar leiksins léku stórt hlutverk.

„Okkur skorti kannski smá þrek í restina. Ég er rosalega ánægður með strákana í 60 mínútur og þetta er okkar langbesti leikur hingað til. Það voru kannski aðrir þættir líka sem gera það að verkum að við töpum þessum leik, þættir sem að við höfum enga stjórn á. Síðan vorum við að spila á móti frábæru handboltaliði og þeir voru bara klókari en við í lokin," sagði Einar við mbl.is eftir leikinn.

Er eitthvað sérstakt í ykkar leik sem þarf að bæta til þess að vinna svona leik?

„Við getum alltaf bætt okkur eitthvað. Við erum að bæta okkur með hverjum leiknum en það er alltaf hægt að finna einhverja punkta. Við vorum agalausir í vörninni á köflum.”

Dómgæslan var oft á tíðum skelfileg í kvöld. Hver er þín skoðun á því?

„Ég er bara alveg sammála þér. Ég get tekið mörg atriði úr leiknum og þeir höfðu alltof mikil áhrif á leikinn. Þetta var bara ekki boðlegt en það er nú bara þannig að það spáir enginn í því. Við þjálfararnir tuðum og vælum og handboltinn virkar bara þannig að þeir voru svo bara frábærir eftir á. Ég veit ekki hvað skal segja, það sjá það allir í húsinu og þú með talinn að þetta var langt frá því að vera ásættanleg frammistaða. Þeir voru bara aðalmennirnir á vellinum.”

Þeir misstu stjórn á leiknum og það geta allir átt slæman dag. Hvað þarf að breytast í dómgæslunni og umræðunni um dómarana til að þeir taki hlutina kannski aðeins til sín og bæti sinn leik?

„Dómara skortir miklu betri þjálfun, meira  aðhald og kannski meiri auðmýkt. Síðan þurfum við þjálfarar og ég segi það fyrstur manna að við þurfum að gefa dómurum miklu meiri vinnufrið. Það er alltaf byrjað á öfugum enda. Við eigum alltaf að halda kjafti en væri ekki líka gott að pæla í og bæta aðhald og þjálfun dómara? Þegar dómarar dæma þokkalega vel og eru bara sanngjarnir þá segir enginn neitt.“

Það hljóta allir að vera sammála því að hlutverk dómara í leikjum eigi að vera með þeim hætti að það taki helst enginn eftir þeim?

„Auðvitað á það bara að vera þannig en því miður þá gerist stundum eins og gerðist í kvöld. Þú ert reyndar fyrsti blaðamaðurinn sem spyrð  mig að einhverju vitrænu um dómgæslu og ég er mjög ánægður með það eins og það er nú leiðinlegt að ræða þá eftir leik og auðvitað vill maður helst ekkert vera að því. Það er miklu skemmtilegra að ræða bara um handbolta.”

Næsti leikur hjá ykkur er gegn Val. Hvernig sérðu þann leik fyrir þér?

„Það er bara hrikalega skemmtilegt verkefni og eins og ég sagði þá erum við búnir að vera bæta okkur með hverjum leiknum og við stefnum á sigur í þeim leik eins og öllum leikjum. Vonandi tekst okkur að bæta okkur enn meira í þeim leik," sagði Einar í samtali við mbl.is

mbl.is