Ekki boðlegt í efstu deild

Þórir Ólafsson var allt annað en sáttur.
Þórir Ólafsson var allt annað en sáttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss, var alls ekki fámáll eftir þriðja tap Selfyssinga í röð í úrvalsdeild karla í handbolta og var sammála blaðamanni í því að hans menn töpuðu leiknum á fyrsta korterinu.

„Við vorum að henda boltanum frá okkur í sókninni í upphafi leiks og fá hraðaupphlaup í andlitið. Við lentum strax í brekku þarna. Síðan breyttum við í 6-0 í vörninni og þéttum okkur aðeins og þá voru Valsmenn að fá erfiðari skot.

Það komu góðir kaflar inn á milli en svo erum við að tapa boltanum klaufalega og gerum varnarmistök. Valsmenn hafa oft klárað leiki á fyrsta korterinu og halda það svo út og sú var raunin í kvöld,“ sagði Þórir í samtali við mbl.is eftir leik.

Hitastigið hátt

„Við vissum að við þyrftum að eiga fullkominn leik til að vinna Val. Við erum með laskað lið en erum að reyna að kveikja neista og biðja um meiri baráttu og mér finnst strákarnir eiga hrós skilið fyrir það, þeir börðust og gerðu allt sem þeir gátu til að berjast á móti Valsmönnunum. Þetta er það sem við erum búnir að óska eftir og ef við mætum svona í alla leiki þá eigum við eftir að tína fullt af stigum,“ bætti Þórir við.

Hitastigið í leiknum var hátt á tímabili enda tóku dómararnir, Bogdan Dumitrel Ana Gherman og Guðbjörn Ólafsson, margar stórskrítnar ákvarðanir sem pirraði leikmenn beggja liða. Þórir var ósáttur við dómaraparið, sem dæmdi einnig síðasta leik Selfoss, gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ.

„Það er alveg óhætt að segja að dómgæslan í dag var ekki á úrvalsdeildarstigi, ekki frekar en í síðustu umferð hjá okkur. Það segir sitt þegar bæði lið eru brjáluð. Eftir síðasta leik voru Mosfellingar trylltir út í dómarana eftir öruggan sigur.

Menn eru að leggja mikið á sig til þess að spila í efstu deild, ég er ekki að segja að dómgæslan hafi ráðið úrslitum, langt frá því, en það eru mörg stór atriði sem manni finnst auðvelt að sjá. Þetta er bara því miður ekki boðlegt í efstu deild,“ sagði Þórir.

Græða á að fá að spila núna

En tökum nú upp léttara hjal... ungu Selfyssingarnir eru svo sannarlega að fá eldskírn í efstu deild eftir að hafa spilað með ungmennaliði Selfoss í 1. deildinni í fyrra.

„Já, Einar Sverris spilaði meira í kvöld en við áttum von á en ungu strákarnir bera þetta uppi núna. Við vissum að hópurinn yrði þunnur til að byrja með en þegar gömlu kallarnir koma inn aftur þá verða þessir ungu orðnir sjóaðir.

Þeir græða á því að fá að spila núna og svo smellur þetta saman þegar fækkar á meiðslalistanum hjá okkur,“ segir Þórir bjartsýnn á framhaldið þó að byrjunin í deildinni sé ekki góð.

„Við eigum FH úti næst, það er erfitt verkefni en það er bara næsta skref hjá okkur að fækka mistökunum og mæta þéttir frá fyrstu mínútu. Þetta snýst allt um það og það getur allt gerst í þessari deild. VIð þurfum bara að hugsa um okkur og vera klárir.“

mbl.is