Finnst ég mega gera meira

Elmar Erlingsson hefur leikið mjög vel á tímabilinu.
Elmar Erlingsson hefur leikið mjög vel á tímabilinu. mbl.is/Árni Sæberg

Elmar Erlingsson, leikmaður ÍBV, hefur farið hvað best af stað í liðinu þegar þrjár umferðir eru búnar af úrvalsdeildinni. Hann hefur skorað 25 mörk, tíu gegn Stjörnunni, þrjú gegn Víkingum og tólf gegn Haukum en hann ræddi við mbl.is eftir 30:26 sigur á Haukum í kvöld.

„Sóknar- og varnarleikurinn var góður, það gekk einhvern veginn allt upp í dag, þetta var aðeins öðruvísi en í síðasta leik og þetta var gott svar. Við mættum í þennan leik og ætluðum að svara fyrir okkur eftir síðasta dapra leik,“ sagði Elmar en hann sagði liðið hafa verið staðráðið í því að kvitta fyrir lélega frammistöðu gegn Víkingum.

„Já, við vorum strax spenntir að stutt væri í næsta leik, við æfðum vel og höfðum undirbúið okkur vel. Það var geðveikt að ná að svara fyrir okkur. Þetta var geðveikt gaman.“

Elmar Erlingsson
Elmar Erlingsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Þetta er annar stjörnuleikur Elmars á tímabilinu en hann átti einmitt frábæran leik gegn Stjörnunni í fyrstu umferð þar sem hann skoraði 10 mörk úr 11 skotum en hann gerði gott betur í dag og skoraði 12 mörk úr 15 skotum. Gerði Elmar eitthvað öðruvísi fyrir þetta tímabil?

„Ég finn bara að ég er árinu eldri og finnst ég mega gera meira, Dagur er núna meiddur og þá þarf ég að stíga upp því það er enginn annar, það var gaman,“ segir Elmar en hann finnur fyrir meiri ábyrgð á sínum herðum heldur en síðustu ár.

„Já, ég finn mjög mikið fyrir því, ég hef lært helling og mér finnst mjög gaman að mega skjóta því ég hef mjög gaman að því þegar ég má gera eitthvað.“

Eyjamenn misstu stóra pósta varnar- og sóknarlega fyrir þetta tímabil hvernig telur Elmar hópinn hafa tekist á við það?

„Mjög vel, þessi Portúgali er algjör sleggja og líkur Rúnari en hann þarf að venjast okkur og við að venjast honum. Þegar það verður komið mun sjást að þetta er geðveikur leikmaður,“ sagði Elmar en hann telur þetta tímabil verða líkt því síðasta.

„Við ætlum að reyna að berjast um alla titla, við erum náttúrulega ÍBV og það er það sem við reynum.“

mbl.is
Loka