Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var leiður eftir leik sinna manna gegn ÍBV í kvöld en Haukar lágu 30:26 í Vestmannaeyjum í úrvalsdeild karla í handbolta. Í síðustu ferð Hauka til Vestmannaeyja urðu ÍBV Íslandsmeistarar í oddaleik og hafa liðin spilað marga mikilvæga leiki síðustu ár og hefur rígur myndast á milli liðanna.
„Mér fannst við ekki koma nógu grimmir inn í leikinn, skelfilegt báðu megin, varnarlega í byrjun leiksins held ég að þeir skori 11 mörk á einhverjum 10-12 mínútum, eftir það verður þetta leikur. Við skorum fyrsta markið í seinni hálfleik en gefum of mikið eftir, við fengum smá kraft og í stöðunni 20:17 fórum við með 6-7 sóknir í röð.
Þar vorum við búnir að kick-starta einhverju varnarlega en nýttum
það ekki sóknarlega, misstum boltann, klaufaleg mistök því það voru tækifæri til að taka þennan leik. ÍBV var betra, það er ekkert flóknara en það.“
Haukar voru frábærir eftir leikhlé Ásgeirs eftir tæpar 17 mínútur, þá leiddu Eyjamenn 12:9 en Haukar komast inn í hálfleikinn með stöðuna 15:15.
„Það voru ekkert þannig breytingar á þessu, við töluðum aðeins um að mæta þeim, þeir voru að þruma okkur beint í kaf á miðjunni, það er óásættanlegt. Það voru aðallega breytingarnar en við þurftum eitthvað að gera, mér fannst leikurinn vera að sigla frá okkur, við fórum í framliggjandi sem heppnaðist þannig séð en sóknarlega var þetta ekki eins gott.“
Eyjamenn náðu 3-4 marka forskoti snemma í báðum hállfeikjum og það var erfitt fyrir Hauka að elta allan leikinn.
„Sérstaklega þar sem við byrjum á að komast í 16:15 eftir hálfleikinn en fáum síðan á okkur fjögur mörk í röð, það er ekki í lagi. Maður hélt að það kæmi áframhald af því sem við vorum búnir að gera undir lokin í fyrri hálfleiknum en þeir voru klókari en við, það var ekki flóknara en það.“
Markverðir Eyjamanna vörðu tvöfalt fleiri skot en markverðir Hauka og það munar um það. „Að sama skapi fannst mér þeir bara agaðir í sínum skotum, við vorum að taka mikið af lélegum skotum, gáfum þetta of mikið. Ég tek ekkert af markmönnum Eyjamanna, þeir stóðu sig vel.“
Ásgeir nýtti leikmannahópinn sinn frábærlega í dag og allir útileikmenn liðsins sem komu inn á skoruðu mark og langflestir fleiri en eitt, er það eitthvað sem Ásgeir ætlar að gera í vetur til að auka breidd liðsins?
„Það er alveg klárt að mér finnst það vera styrkleiki okkar hve marga og hve góða leikmenn við höfum, ég treysti þeim öllum til að spila og verð því að finna leið til að nýta það og rótera hratt, það er hluti af því. Ég ætla samt fyrst að vinna leiki, frekar en að rótera mikið.“
Haukar eru með tvö stig eftir sigur á Stjörnunni og töp fyrir HK og ÍBV, Ásgeir segir það langt frá því að vera það sem lagt var upp með fyrir þessa leiki.
„Að vera með tvö stig eftir þrjá leiki er alls ekki það sem við ætluðum okkur, algjört vanmat hjá okkur að tapa á móti HK en mér fannst mikill stígandi í leiknum á móti Stjörnunni, þar fannst mér við sýna hvað býr í okkar liði og ég hefði viljað fá betra framhald af því í dag en ég sá það ekki, því miður.“