Maður fattar það ekki í þjáningunni

Óskar Bjarni Óskarsson var sáttur með sína menn.
Óskar Bjarni Óskarsson var sáttur með sína menn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var þrælsáttur með sína menn eftir stórsigur á Selfossi í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld, 32:19 á Selfossi.

„Við byrjuðum þetta faglega og það var gott en í kjölfarið fórum við aðeins að slaka á, urðum hægir og fórum að missa hraðaupphlaupin og vörnin var mjúk. Við misstum þetta dálítið mikið niður, miðað við hvernig byrjunin var.

Það var mikið af tæknifeilum í seinni hálfleiknum en við vorum duglegir að hlaupa til baka og spiluðum góða vörn,“ sagði Óskar í samtali við mbl.is eftir leik.

Valsmenn mættu vel gíraðir í leikinn og gerðu út um hann á fyrsta korterinu en það vakti athygli blaðamanns að það var liðsstjórinn Finnur Jóhannsson sem virtist halda uppi stemningunni hjá liðinu áður en flautað var til leiks.

„Það eru allir leikir eins hjá Finna, sama hvort það er bikarúrslitaleikur eða þriðji leikur í deild, eða næsti leikur, hann er alltaf á fullu inni í klefa og úti á gólfi. Ég tek bara eitthvað taktíst og svo er hann að æsa menn upp, bara eins og hann var sem leikmaður, stórkostlegur og það er frábært að fá hann aftur til okkar,“ sagði Óskar sem gaf sér einnig góðan tíma til að hrósa ungu liði Selfoss.

„Þetta er erfitt fyrir Selfoss með langan meiðslalista og þeir eru nánast að spila á U-liðinu síðan í fyrra. Það eru öflugir strákar þarna, Hans Jörgen og fleiri. Þeir voru að henda sér á boltann og berjast og héldu þessu lengi í 4-5 mörkum. Ég verð bara að hrósa þeim, þeir eiga eftir að verða enn sterkari þegar líður á veturinn. Ég held að þessi meiðsli hjá Selfyssingum núna - maður fattar það ekki í þjáningunni - muni hreinlega styrkja þá til lengri tíma,“ sagði Óskar.

Valsmenn ferðuðust til Litháens í upphafi vikunnar og léku þar gegn Granitas Karys í Evrópubikarnum. Óskar viðurkennir að vikan hafi verið þung.

„En við erum að spila á rosalegri breidd, við erum með 18-19 frábæra leikmenn og við spiluðum á öllum í kvöld. Það vantaði Róbert Aron, Vigni og Jóel í kvöld en við erum með allt of marga góða leikmenn, það eru bara algjör forréttindi og við keyrum bara á þá.

Við eigum að þola ágætis álag og við höfum rúllað þessu vel í öllum leikjunum hingað til og yfirleitt notað allan hópinn. Ég er mjög ánægður með gæðin og breiddina í liðinu, það er ekki hægt annað,“ sagði Óskar að lokum.

mbl.is
Loka