Þorði enginn neinu í kvöld

Atli Steinn Arnarson sækir að Víkingum í kvöld.
Atli Steinn Arnarson sækir að Víkingum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja eftir svona lélega frammistöðu. Við vorum lélegir á öllum sviðum og ég veit hreinlega ekki hvað ég get sagt,” sagði Þorfinnur Máni Björnsson leikmaður Víkings spurður að því hvað hafi valdið slökum leik þeirra á móti FH í úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Ef við berum saman þennan leik við leikinn á móti ÍBV. Hvað vantaði þá upp á í kvöld?

„Það vantaði allan karakter í liðið í kvöld og við vorum ekki að vinna fyrir næsta mann. Í kvöld erum við bara að spila boltanum áfram í stað þess að taka af skarið og skjóta á markið. Það þorði enginn neinu í kvöld og þetta var bara alveg andlaust.”

Eru Víkingar kannski saddir eftir stórsigurinn á móti ÍBV?

„Nei alls ekki saddir. Við erum að fara mæta grimmir í næsta leik og ég, Danni og allir eigum eftir að eiga miklu betri leik á móti Haukum í næsta leik. Sem gamall Haukamaður hlakka ég bara til að sækja tvö stig á móti Haukum. Ég vill fá tvö helvítis stigin,” sagði Þorfinnur í samtali við mbl.is.

mbl.is