Magnús Stefánsson, þjálfari Íslandsmeistara ÍBV í handknattleik karla, var ánægður með sigur liðsins á Haukum í kvöld í 3. umferð úrvalsdeildarinnar og ekki síður með svar liðsins við tapi gegn nýliðum Víkinga í síðustu umferð. Lokatölur í kvöld 30:26 en Eyjamenn höfðu forystuna mest allan leikinn.
„Við mættum gríðarlega vel undirbúnir en einnig svekktir og sárir eftir síðasta leik á undan. Það var eitthvað extra fyrir þennan leik útaf því hvernig við vorum í leiknum á undan, undirbúningurinn og vikan hjá strákunum var mjög góð, ég er virkilega ánægður að fá þessa svörun frá þeim,“ sagði Magnús aðspurður hvers vegna ÍBV hefði unnið þennan leik. Magnús hefur verið í baráttunni innan vallar í leikjum ÍBV og Hauka í fjölda ára en það er mikill rígur á milli þessara liða.
„Það er alltaf mikill rígur á milli þessara liða og það mun aldrei breytast, það gerir þetta að skemmtilegum leikjum, þetta var extra motivation fyrir okkur til að gíra sig inn í leikinn, það hjálpaði okkur líka. Allt hrós á strákana, hvernig þeir eru búnir að vera í vikunni fram að leik og í leiknum, maður fann einbeitinguna og viljann til að bæta upp fyrir síðasta leik.“
Eyjamenn náðu þriggja til fjögurra marka forskoti snemma leiks og svo aftur í síðari hálfleik, það var dýrmætt fyrir liðið að vera með þetta forskot því þá þurftu Haukarnir að elta þá.
„Það var þægilegt, engin spurning. Það er líka kúnst að ná að halda því út, við eigum eftir að læra það aðeins en það kemur með reynslunni. Ég var ánægður með Elmar í dag, án þess að ég ætli að taka einhvern sérstaklega út fyrir sviga, þá stýrði hann þessum leik mjög vel. Ég var virkilega ánægður með hvernig hann mætti til leiks í dag og liðið fylgdi með,“ sagði Magnús en Dagur Arnarsson er að glíma við meiðsli og lék ekki með ÍBV í dag.
„Hann og Dagur hafa séð um þetta saman og því var þetta smá prófsteinn fyrir Elmar, hvernig honum myndi reiða af, verandi einn. Hann stóðst það próf með glans.“
Kári Kristján Kristjánsson hafði ekki leikið í fyrstu tveimur leikjum liðsins en hann þekkir sögu þessara liða vel og hreif menn með sér innan vallar í dag.
„Hann rífur menn alltaf með sér upp í næsta gír, það kemst enginn upp með að vera á joggi, þá fá þeir orð í eyra, þeir nenna því ekkert og eru því á milljón. Hann og Svenni eru gott combo og hafa unnið mjög vel saman frá því að Svenni kom, það er virkilega gott að hafa þá tvo saman.“
Eyjamenn, þá aðallega í stúkunni, voru ekki alltof ánægðir með dómara leiksins á köflum þar sem þeir töldu ÍBV eiga að fá nokkra dóma en Magnús var ánægður með dómgæsluna í dag.
„Ég var rosalega ánægður með þá, þeir settu línu og héldu henni. Þeir leyfðu okkur að taka þetta klassíska röfl en komu síðan í spjallið, með stutta útskýringu og áfram gakk. Ég vil hrósa þeim, því yfirleitt erum við klárir í að tuða yfir þeim en ekki hrósa þeim.“
Eyjamenn vinna markmannsbaráttuna í dag og eru með 20 skot varin gegn tíu vörðum skotum gestanna. Pavel Miskevich varði níu skot í fyrri hálfleik af þeim 24 sem hann fékk á sig en Petar Jokanovic byrjaði síðari hálfleikinn og varði helming skota Hauka sem rötuðu á markið.
„Við erum búnir að skipta aðeins um gír þegar kemur að markvörslunni og þeirra nálgun á leikinn er orðin meira pro með tilkomu Rolands, hann er að setja sinn svip meira og meira á þeirra stíl og nálgun. Ég held að þetta verði það sem koma skal hjá þeim.“
Haukar og ÍBV runnu bæði á bananahýði ef svo má segja í fyrstu tveimur umferðunum þar sem þessi tvö lið léku oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í vor hafa tapað fyrir sitthvorum nýliðunum í deildinni. Heldur Magnús að deildin verði jafnari en síðustu ár?
„HK fór niður, héldu hópnum og eru að byggja upp virkilega sterkt og vel spilandi lið það er ekkert hægt að taka þetta lið núna og ætlast til þess að fara í auðveldan leik, sama hvort liðið heiti Víkingur eða HK, eða hvað sem er. Þetta er jafnara og það er búið að brúa þetta bil sem var á milli sterkustu liðanna og þeirra veikari, þegar þessi lið sem eru að koma upp ná að halda sínum leikmönnum, sem er mikill styrkur í. Ég held að þetta verði virkilega skemmtileg deild í vetur.“
Daniel Viera hefur fengið sinn skammt af gagnrýni fyrir fyrstu umferðir mótsins en var góður á báðum endum leiksins í kvöld þar sem hann byrjaði og endaði af krafti.
„Þetta var líkara því sem við erum að sjá á æfingum, hann komst í flæði við leikinn og þá sjáum við að þetta er strákur sem kann handbolta og er góður í honum. Verðum við ekki að gefa þessum leikmönnum sem koma að utan, útlendingum sem koma að spila í íslensku deildinni, smá break, ég tala nú ekki um þegar þeir eru ungir. Hann er ekki með margra ára reynslu á bakinu og því er þetta smá stress hjá honum en svo fer honum að líða betur og betur, þá mun hann sýna meira af þessu.“