Naumt tap Vals gegn sterku rúmensku liði

Thea Imani Sturludóttir þrumar að marki Dunarea í dag.
Thea Imani Sturludóttir þrumar að marki Dunarea í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Íslandsmeistarar Vals máttu þola naumt 30:29-tap gegn Dunarea Braila frá Rúmeníu í fyrri leik liðanna í 2. umferð undankeppni Evrópudeildar kvenna í handbolta á Hlíðarenda í kvöld. 

Gestirnir voru einu skrefi á undan allan fyrri hálfleikinn og Elena Serban varði nokkrum sinnum afar vel í markinu, sem hélt Valsliðinu í skefjum.

Þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður var staðan 9:6, en skömmu síðar fékk Valur gott tækifæri til að jafna í 9:9. Það fór hins vegar forgörðum og skömmu síðar var staðan orðin 14:10. Að lokum munaði þremur mörkum í hálfleik, 15:12.

Thea Imani Sturludóttir skoraði fjögur mörk fyrir Val í fyrri hálfleik og Sara Sif Helgadóttir kom mjög sterk inn í markið undir lok hálfleiksins, eftir að Hafdís Renötudóttir fann sig ekki. Elena Serban varði átta skot í hálfleiknum og var besti leikmaður gestanna í fyrri hálfleik.

Valskonur byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og minnkuðu muninn í 20:19 snemma. Munurinn var áfram 1-3 mörk næstu mínútur og munaði tveimur mörkum þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, 25:23.

Næstu sóknir beggja liða gengu illa, en Lilja Ágústsdóttir minnkaði muninn í 25:24, þegar tíu mínútur voru eftir. Hún á svo um að jafna í 25:25 skömmu síðar og stefndi í æsispennandi lokamínútur.

Sú varð svo sannarlega raunin og var staðan 29:29 þegar skammt var eftir. Jelena Zivkovic skoraði þrítugasta mark gestanna um mínútu fyrir leikslok og kom þeim í 30:29, sem urðu lokatölur. 

Thea Imani Sturludóttir var markahæst hjá Val með átta mörk og þær Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Lilja Ágústsdóttir skoruðu sex hvor. 

Seinni leikurinn fer fram ytra næstkomandi laugardag.

Valur 29:30 Dunarea Braila opna loka
60. mín. Jelena Zivkovic (Dunarea Braila) skoraði mark Gegnumbrot. 55 sekúndur eftir.
mbl.is