Brasilískar systur til Akureyrar

Nathália og Isabelle Fraga.
Nathália og Isabelle Fraga. Ljósmynd/KA

Handknattleiksdeild KA/Þórs hefur gengið frá samningum við brasilísku systurnar Nathália og Isabelle Fraga og munu þær leika með Akureyrarliðinu á tímabilinu.

Sú fyrrnefnda, sem er 28 ára, er komin til landsins og er vonast til að hún geti leikið með liðinu gegn Stjörnunni næstkomandi föstudag. Hefur hún æft með Akureyrarliðinu undanfarnar vikur.

Isabelle er 21 árs og hún kemur til Akureyrar um miðjan næsta mánuð, þegar deildarkeppninni í heimalandinu er lokið. Hún hefur leikið með yngri landsliðum þjóðar sinnar.

Nathalia Baliana kom til KA/Þórs fyrir síðasta tímabil og verða því þrír brasilískir leikmenn hjá liðinu innan skamms. KA/Þór hefur farið illa af stað í úrvalsdeildinni og tapað þremur fyrstu leikjum sínum.

mbl.is